Fimmtudagur 23. desember 1999

357. tbl. 3. árg.

Þá mun enn ein sameining vinstri manna farin út um þúfur. Hér er ekki átt við að samfylking vinstri manna er nú samkvæmt skoðanakönnunum minni en það sem talið var klofningsbrot úr henni. Vinstri menn munu nefnilega hafa haldið úti vefsíðu undir nafninu Sameining.is. Þessi vefsíða mun nú hafa sungið sitt síðasta. Það verður ekki tekið af vinstri mönnum að þeir voru fljótir að tileinka sér netið við helstu iðju sína þ.e. að fara af stað með sameiningu og hætta svo við hana.

Í jólablaði Vísbendingar er viðtal við Jónas Kristjánsson fyrrverandi forstöðumann Árnastofnunar undir yfirskriftinni „Réttast væri að einkavæða Árnastofnun“ og er það tilvitnun í Jónas. Jónas segist hafa verið hallur undir víðtækan ríkisrekstur fyrr á árum en skoðanir sínar hafi breyst í áranna rás. Hann segir raunasögu af útgáfu sænsku akademíunnar á sænskri orðabók en fyrsta bindi hennar kom út árið 1898 en síðasta bindið leit dagsins ljós tæpri öld síðar eða árið 1993 og var þá komið að uppflettiorðinu St.! Jónas tók á móti Karli Gustaf Svíakonungi þegar hann kom í heimsókn á Árnastofnun og sýndi honum m.a. eitt bindi orðabókarinnar góðu. Þá mælti hinn ungi og fámáli konungur sín einu orð sín í heimsókninni: „Dom blir aldrig färdiga“. Jónas segir því: „Þessi knappi dómur hefur löngum klingt í eyrum mér eins og bjalla. Tilfinning mín, og reynsla víða að, lögðust á eitt um að sannfæra mig um að þegar hið opinbera, ríki og sveitarfélög, fara með rekstur stofnana, hafi þær stofnanir tilhneigingu til að falla í fastar skorður og starfsemin að sofna út af í værð.“