Mánudagur 13. desember 1999

347. tbl. 3. árg.

Kristján Pálsson fór í ræðustól á þingi í síðustu viku til að spyrja Sólveigu Pétursdóttur dómsmálaráðherra hvort „einhverjar sérstakar aðgerðir [væru] í gangi eða í undirbúningi til þess að sporna gegn sívaxandi glæpum og ofbeldi“. Kristján nefndi þó ekkert sem bendir til þess að glæpir og ofbeldi fari sívaxandi. Fyrirspurnin virtist eingöngu byggð á tilfinningu þingmannsins eða í besta falli frétt um eitt eða tvö afbrot sem hann hefur lesið yfir kaffibollanum þennan morgun. Af svari dómsmálaráðherra mátti hins vegar greina að ráðamenn eru ef til vill farnir að átta sig á því að hertar aðgerðir gegn fíkniefnasölu hafa aðrar afleiðingar en ætlast er til með aukinni löggæslu og hertum refsingum.

Í svari dómsmálaráðherra sagði: „Rétt er að háttvirtur þingmaður átti sig á því að það er ekkert nýtt að alvarleg afbrot eins og manndráp tengist ofneyslu áfengis og fíkniefna. Því miður er það algengara. Löggæsla vegna fíkniefnabrota hefur hins vegar stóraukist á síðustu árum eins og sjá má á stórum málum sem nú eru til rannsóknar hjá lögreglu. Hins vegar má benda á að það getur skapað ákveðið vandamál. Við stóraukna löggæslu eykst vandi fíkniefnaneytenda enn frekar vegna þess að framboð efna á markaðnum minnkar, verðið hækkar og fjárþörfin eykst þar með hjá fíkniefnaneytendum.“
Vef-Þjóðviljinn fagnar því að yfirvöld hafa þessa hlið málsins í huga og viðurkenna það í opinberri umræðu. Til þess þarf vissulega kjark.

Í þættinum Silfur Egils á Skjá 1 í gær taldi Árni Steinar Jóhannsson þingmaður Vinstri-grænna það rök gegn sölu ríkisbankanna að ef til vill keypti ríkið bankana aftur eða hlypi undir bagga með þeim ef rekstur þeirra gengi illa síðar. Í stuttu máli virðist þessi málflutningur ganga út á að ekkert megi færa til betri vegar í þjóðfélaginu vegna þess að þá sé hætta á því að einhverjir muni einhvern tímann færa það í sama farið! Ef Árni Steinar og félagar í Vinstri-grænum eru hræddir við að bankarnir verði þjóðnýttir að nýju ættu þeir að breyta stefnuskrá sinni sem gerir ráð fyrir ríkisrekstri viðskiptabanka. Þeir eru eini flokkurinn sem boðar þetta úrræði sem Árni hræðist svo mjög.