Erfitt hefur verið að fá út úr þeim vinstri mönnum sem um þessar mundir segjast talsmenn „þriðju leiðarinnar“ hvað það tal þeirra þýði. Helstu forsprakkar þeirra eru Gerhard Schröder kanslari Þýskalands og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og hefur helst mátt skilja þá á þann veg að láta eigi atvinnulífið lúta lögmálum markaðarins en ekki vera háð miklum afskiptum hins opinbera. Þetta kom t.d. fram í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra frá því fyrir um hálfu ári, en þar sagði: „Það sjónarmið að ríkið verði að grípa inn í þegar markaðurinn bregst, hefur allt of oft leitt til of mikillar útþenslu stjórnsýslu og skrifræðis í pólitík félagshyggjumanna. Veikleikar markaðarins hafa verið ofmetnir á meðan styrkur hans hefur verið vanmetinn.“
Í hvert sinn sem slíkir menn tala á þessum nótum ímynda margir sér að þeir séu búnir að sjá að sér og að nú sé kominn sá tími að félagshyggjumenn hafi öðlast skilning á kostum markaðarins. Nú þurfi ekki að hafa áhyggjur þó þeir sitji við völd, þeir muni ekki sjá ástæðu til mikilla afskipta hins opinbera af atvinnulífinu. Þegar taka þarf á erfiðum málum kemur hins vegar stundum í ljós að trú þeirra á að markaðurinn eigi að fá að ráða örlögum þeirra fyrirtækja sem á honum starfa er ekki mikil.
Schröder er einmitt gott dæmi um þetta. Ferill hans markast af því að hann kýs oft að láta hið opinbera grípa inn í rekstur einkafyrirtækja, hvort sem það er til að koma í veg fyrir að útlendingar eignist þýsk fyrirtæki eða „hálpa“ fyrirtækjum í erfiðleikum. Þetta átti við þegar hann stýrði Neðra-Saxlandi og enn grípur hann inn í atvinnulífið, síðast nú um daginn þegar hann notaði stórfé úr ríkissjóði til að bjarga byggingarfyrirtæki.
Slík afskipti gera atvinnulífinu lítið gagn, nema þessu eina fyrirtæki til skamms tíma, en verða hins vegar til mikils ógagns almennt séð. Í Þýskalandi hafa menn áhyggjur af því að þetta viðhorf til ríkisafskipta komi í veg fyrir að útlendingar hafi áhuga á að fjárfesta í landinu, enda vilja þeir geta treyst því að ríkið skipti sér ekki af einstökum viðskiptum og skekki þannig markaðinn. Þar fyrir utan er hinn augljósi ókostur að þetta kostar skattgreiðendur fé, bæði beint vegna útgjaldanna og óbeint vegna þeirrar óhagkvæmni sem þetta veldur.

Hvort vinstri menn hætta einhvern tímann að láta sér nægja að láta orðin tala og fara þess í stað að láta verkin gera það, er ekki gott að segja. Hitt er víst, að enn í dag er því miður ekki ástæða til að ætla að þeir hafi öðlast skilning á því hvers vegna best fer á því að þeir láti atvinnulífið í friði. Norman Barry prófessor í stjórnmálafræði við University of Buckingham heldur því fram í grein í nóvemberhefti tímaritisins The Freeman að þriðja leiðin hafi verið reynd í Bretlandi fram til 1979 og einnig í Þýskalandi eftir að „þýska efnahagsundrinu“ lauk um 1960. Hann andmælir því raunar að um sérstakt efnahagsundur hafi verið að ræða í Þýskalandi að loknu seinni stríði. Skjótar efnahagslegar framfarir hafi verið eðlileg afleiðing þess efnahagsfrelsis sem Ludwig Erhard fjármálaráðherra og síðar kanslari beitti sér fyrir. Meðal þeirra sem gagnrýndu stefnu Erhards harkalega var John Kenneth Galbraith en hann lofaði Þjóðverjum fátækt og eymd ef stefna Erhards næði fram að ganga. Barry telur að bágborið efnahagsástand í Þýskalandi um þessar mundir sé einmitt afleiðing þess að menn hafi reynt að þræða einhvern veg milli frjáls markaðskerfis og sósíalisma í stað þess að halda sig við stefnu Erhards. Aðeins ábyrg peningastefna sé eftir til minnis um stefnu hans.