Innheimtudeild Ríkisútvarpsins er umdeild stofnun enda sér hún um að innheimta hin illa þokkuðu afnotagjöld RÚV. DV og Vísir sögðu frá því í fyrradag að fjölskylda sem flutti til landsins frá Bandaríkjunum fyrir sjö árum og var búin að fá nóg af sjónvarpsglápi hafi mátt þola ítrekað áreiti frá innheimtudeildinni þótt ekkert sjónvarpstæki hafi verið á heimilinu. Hafði það einnig áhrif á ákvörðun fjölskyldunar um að fá sér ekki sjónvarpstæki að hún kynnti sér hvaða sjónvarpsefni RÚV býður upp á. G. Pétur Matthíasson hjá innheimtudeild RÚV sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna málsins þar sem hann ber af sér sakir og segir svo: „Rétt er að ítreka að innheimtudeildin leggur ekki nokkurn mann í einelti. Innheimtudeildin fer eftir lögum þessa lands. Enda er það réttlætismál þeirra sem reglulega og skilvíslega greiða afnotagjald Ríkisútvarpsins að allir sem eiga að greiða afnotagjaldið geri það.“
Þrátt fyrir fögur orð í bréfi G. Péturs er alveg skýrt að innheimtudeild RÚV fer ekki eftir lögum þessa lands. Innheimtudeildin innheimtir til dæmis ekki afnotagjöld af G. Pétri Matthíassyni þótt þess sé hvergi getið í lögum að hann sé undanþeginn greiðslu afnotagjaldanna. Þvert á móti segir skýrt að allir eigendur viðtækja sem nýta má til móttöku sendinga RÚV eigi að greiða afnotagjöldin. G. Pétur sjálfur telur það greinilega ekki „réttlætismál“ að allir sem eiga að greiða afnotagjaldið geri það enda er hann ekki í hópi „þeirra sem reglulega og skilvíslega greiða afnotagjald Ríkisútvarpsins“.