Gísli S. Einarsson þingmaður Samfylkingar mun í dag leggja fram frumvarp á Alþingi sem kemur í veg fyrir að menn fái undir 112 þúsund krónum í mánaðarlaun, verði það að lögum. Þetta er þó ekki frumvarp um að lækka skatta á fyrirtæki svo hressilega að þau geti greitt hærra kaup eða lækka skatta á launafólk svo það fái meira í vasann. Nei, ef frumvarpið hans Gísla verður að lögum verður bannað að greiða eða þiggja 111.999 krónur eða þaðan af minna í laun. Í raun jafgilda slík lög banni við ákveðnum störfum þ.e. störfum þeirra sem hafa minnstu tekjurnar í dag. Það er sérkennilegt að ætla sér að bæta hag þeirra sem lægstu launin hafa með því að banna störfin sem þeir hafa þó sínar litlu tekjur af. Þessi hugmynd er sérstaklega skaðlegt í ljósi þess að oft eru þetta störf sem fólk vinnur til að fá reynslu á vinnumarkaðnum, þ.e. þetta eru oft störf sem fólk notar til að komast inn á vinnumarkaðinn og vinnur sig svo upp úr. Það mætti ætla að verkalýðsfélögin sem samið hafa um laun fyrir marga félagsmenn sína á bilinu 70 til 112 þúsund hefðu eitthvað við það að athuga þegar þingmaður leggur það til að fólkið verði svipt vinnu sinni með lagaboði.
Mikael Torfason rithöfundur vekur á því athygli í grein í DV í gær að hann greiðir 35 þúsund krónur á mánuði fyrir leikskólapláss fyrir börnin sín tvö en Reykjavíkurborg greiðir 70 þúsund krónur til viðbótar. Samtals kosta því plássin tvö um 105 þúsund krónur á mánuði. Foreldrar greiða þriðjung kostnaðar en útsvarsgreiðendur tvo þriðju, hvort sem þeir eru foreldrar eða ekki og hvort sem þeir nýta sér leikskólana eða ekki. Mikael telur að þessum peningum sé ekki skynsamlega varið á meðan borgaryfirvöld reka leikskólana og leggur til að uppeldið verði tekið af pólítíkusunum. Það er vissulega umhugsunarefni nú þegar það hefur loksins fengist viðurkennt að stjórnmálamönnum er ekki treystandi fyrir rekstri banka, skipafélaga og annarra atvinnufyrirtækja, hvers vegna við treystum þeim til að ala börnin okkar upp.