Þriðjudagur 9. nóvember 1999

313. tbl. 3. árg.

Í dag eru 10 ár liðin frá falli Berlínarmúrsins. Vafalaust telja ýmsir að múrinn hafi verið helsta táknið um það að sósíalisminn hafi mistekist í Sovétríkjunum og öðrum ríkjum Austur-Evrópu. Þeir eru jafnvel til sem telja að sósíalisminn eigi skilið að fá annað tækifæri. Það vekur þó furðu að alls staðar þar sem reynt hefur verið að hrinda sósíalisma í framkvæmd hefur það endað með ósköpum. Það dugar vart sem skýring að vondir menn hafi allsstaðar valist til að hrinda honum í framkvæmd. Ástæðan er einfaldlega sú að sósíalisminn er óframkvæmanlegur. Andstætt frjálsum markaði berast engin boð frá neytendum til framleiðenda í efnahagskerfi sósíalismans. Ákvarðanir um framleiðslu og þjónustu eru teknar af skriffinnum en þeir eru ekki fremur en aðrir alvitrir um þarfir fólks. Líklega vita þeir jafnvel minna en flestir aðrir um þarfir almennings. Á markaðnum geta framleiðendur stuðst við skilaboð frá neytendum sem birtast sem verð á framleiðsluvörum. Þegar þessi skilaboð skortir eru framleiddir sandalar fyrir veturinn og kuldaskór fyrir sumarið.

Vefþjóðviljinn sagði frá því á laugardag, að Mörður Árnason varaþingmaður hefur lagt fram frumvarp til laga, þess efnis að þeir sem skrá sig utan trúfélaga þurfi ekki lengur að greiða til Háskóla Íslands sambærilegt gjald og sóknargjöld annarra landsmanna. Þessu frumvarpi til rökstuðnings rakti Mörður meðal annars félagafrelsisákvæði stjórnarskrár enda er hann alveg á móti skylduaðild að félögum eins og enginn efast nú um.En það eru fleiri félög en trúfélög sem fá peninga af fólki sem kannski er ekki meira en svo áfjáð í að heyra þeim til. Verkalýðsfélög eru meðal annars að því leyti verri en trúfélög að þau veita „félagsmönnunum“ enga undankomuleið. Því myndu ýmsir ætla að áhugamenn um félagafrelsi beindu spjótum sínum jafnvel fyrr að verkalýðsfélögunum en trúfélögum. Undanfarið hafa forystumenn verkalýðsfélaga gjarnan haldið því fram, að í raun sé fólk ekki skyldað til aðildar að félögunum, en hins vegar hafi félögin einfaldlega samið um það við vinnuveitendur að ekki verði aðrir ráðnir til starfa en félagsmennirni. Hljóti mönnum að vera frjálst að semja um slíkt.

Ekki eru allir sammála þeim um þá skýringu. Áslaug Björgvinsdóttir er lögfræðingur og hefur sérmenntað sig í félagarétti sem hún meðal annars kennir við lagadeild Háskóla Íslands. Hún fjallaði um frelsi manna til að standa utan félaga, í grein sem hún skrifaði í Tímarit lögfræðinga á síðasta ári (3. hefti 48. árg. bls. 222-247). Rakti hún þar félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og sagði: „Það verður ekki betur séð en skapist þær aðstæður á sviði einkaréttar að manni sé t.d. nauðugur einn kostur að eiga aðild að stéttarfélagi til að halda vinnu í starfsgrein sinni þar sem stéttarfélag í starfsgreininni hefur samið við vinnuveitendur um félagsskyldu starfsmanna eða forgangsrétt félagsmanna til vinnu í greininni, geti beiting þess háttar ákvæðis falið í sér brot gegn neikvæðu félagafrelsi hans samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.“ Það er væntanlega aðeins tímaspursmál að Mörður taki í taumana. Hann er nefnilega áhugamaður um félagafrelsi en ekki rekinn áfram af gamalgróinni óvild margra vinstri manna í garð Þjóðkirkjunnar.