Í nýjasta tölublaði Veru, (5. tbl. 18. árg.) er að finna grein eftir Jónu Fanneyju Friðriksdóttur sem ber titilinn „Kemur klám mér við?“ Eitt er það sem öðru fremur vekur athygli við lestur greinarinnar og það er eftirfarandi fullyrðing höfundar: „Það er einföld hagfræðikenning að þegar vara er framleidd og síðan seld þá er alltaf einhver sem græðir og annar sem tapar.“ Það er óumdeilanlega rétt hjá höfundi að kenningin er einföld, en hann lætur þess ógetið að kenningin er líka ósönn. Viðskipti á frjálsum markaði eiga sér stað vegna þess að báðir aðilar telja sig betur setta eftir viðskiptin en áður. Spurningunni sem Jóna Fanney setur fram í titli greinar sinnar svarar hún játandi í lokaorðum og segir það meðal annars siðferðilega skyldu okkar að samsinna henni. Það væri hinsvegar fróðlegt að vita hvaða siðferðilegu skyldur reka Jónu Fanneyju til að svara spurningunni „kemur sannleikurinn mér við?“ neitandi.
Framsóknarmenn og vinstri menn boða þessa dagana þá hugmynd að Ríkisútvarpið verði „þjóðarútvarp“. Með því vilja þeir draga úr „pólítískum afskiptum“ af RÚV. Þótt það blasi við að öruggasta leiðin til að úthýsa pólítískum afskiptum sé að einkavæða RÚV er það þó ekki það sem vinstri menn eiga við. Ekki hefur fengist á hreint hvaða leið þeir vilja fara að þessu marki sínu. Sú hugmynd hefur til dæmis ekki heyrst nefnd að kosið sé almennri kosningu í útvarpsráð enda hætt við að frambjóðendur yrðu studdir af stjórnmálaflokkunum eða væru að minnsta kosti fulltrúar tiltekinna skoðana.
Ef til vill vilja vinstri menn að starfsmenn RÚV fái algert sjálfdæmi um reksturinn, hverju er útvarpað, hvað það má kosta og hverjir verði eftirmenn þeirra sem hætta. Eftir stendur þó að menntamálaráðherra getur hækkað og lækkað afnotagjöld að vild, allt eftir því hvernig honum þykir RÚV standa sig. Hætt er við að það yrðu talin „pólítísk afskipti“ ef ráðherra skrúfaði fyrri afnotagjöldin þegar honum þætti eitthvað miður fara. Til að mæta þessu þyrftu starfsmenn RÚV að fá stjórnarskrárvarinn rétt til að ákveða upphæð afnotagjaldanna. Þá gætu þeir gert það sem þeim sýnist án pólítískra afskipta og þyrftu ekki að standa skil á gjörðum sínum fyrir nokkrum manni. (Að sjálfsögðu er gengið út frá því að enginn starfsmanna RÚV hafi pólítíska skoðun og því geti þeir ekki misnotað RÚV í pólítískum tilgangi.) Ef þetta er það sem vinstrimenn eiga við með þjóðarútvarpi hljóta aðrar opinberar stofnanir einnig að fá slíka lausn frá pólítískum afskiptum. Til dæmis Tryggingastofnun, Íbúðarlánasjóður og Byggðastofnun. Með því að veita starfsmönnum þessara stofnana algjört sjálfdæmi um reksturinn og stjórnarskrárvarinn rétt til að innheimta skatta af landsmönnum má vafalaust draga úr „pólítískum afskiptum“ af stofnununum sjálfum.
Framsóknarmenn geta ef til vill dustað rykið af þingsályktunartillögu flokksbróðurs síns Jónasar frá Hriflu frá árinu 1945 sem hljóðaði svo: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að tryggja hlutleysi útvarpsins frá því sem nú er meðal annars með því að láta fara fram fullkomna ritskoðun á öllu útvarpsefni undir yfirstjórn útvarpsráðs og á þess ábyrgð.“ Eins kostuleg og þessi tillaga er þá er hún þó að minnsta kosti öllu skýrari en talið um „þjóðarútvarpið“.
Fönksveitin (Didlsveitin) Jagúar hélt útgáfutónleika sína í íslensku óperunni í gær og naut við það fulltingis þriggja hljómlistarmanna frá Nýju Gíneu. Vef-Þjóðviljinn fullyrðir að ekki hafi áður meiri snidlingar didlað hér á Fróni. Jagúardiskurinn er svo væntanlegur í betri hljómplötuverslanir innan skamms og staldrar stutt við ef marka má undirtektir tónleikagesta í gær.