Laugardagur 30. október 1999

303. tbl. 3. árg.

Wilhelm Röpke
Wilhelm Röpke

Nú í október voru liðin 100 ár frá fæðingu Wilhelms Röpkes. Röpke telst einn af austurrísku hagfræðingunum. Hann varð þess heiðurs aðnjótandi að vera einn fyrsti prófessorinn sem þjóðernissósíalistar hröktu úr embætti eftir að þeir komust til áhrifa í Þýskalandi árið 1932 en Röpke hafði verið prófessor í háskólanum í Marburg frá 1928. Röpke gaf meðal annars út gagnrýni á fasismann árið 1931 undir dulnefninu Ulrich Unfried þar sem hann gagnrýni þá sem reyndu að notfæra sér kreppuna til að sannfæra fólk um ágæti þjóðernissósíalisma. Hann flúði Þýskaland ári eftir að hafa verið flæmdur úr starfi og varð prófessor við háskólann í Istanbúl til ársins 1937. Þá flutti hann til Gefnar þar sem hann tók til starfa við sömu stofnun og Ludwig von Mises hafði starfað við frá 1934, Institute of International Studies. Þeir mynduðu samband frjálslyndra fræðimanna ásamt Hayek en Mont Pelerin samtökin voru byggð á þessu sambandi þegar þau voru stofnuð árið 1947.

Í gegnum Mont Pelerin samtökin hafði Röpke samskipti við Ludwig Erhard sem varð fjármálaráðherra og kanslari Vestur-Þýskalands að stríði loknu. Efnahagsbati landsins varð furðu skjótur og er stundum nefndur „þýska efnahgsundrið“. Röpke taldi þó lítil undur á ferðinni þar sem frjáls markaður hefði fengið að blómstra. Erhard hafði einnig tekist að útvega sér ólögleg eintök af bókum Röpkes á meðan stríðinu stóð sem hann sagði að hefðu verið eins og vatn í eyðimörkinni.

Röpke var sama sinnis og aðrir austurrískir hagfræðingar um ástæður kreppunnar miklu. Hann taldi að óeðlileg aukning peningamagns hefði leitt til offjárfestingar í frumframleiðslugreinum. Um þessar kenningar gaf hann út bókina Crises and Cycles árið 1936. Röpke taldi verðbólgu vera aðferð í anda Keynes til að færa fé úr vasa allra í vasa sumra. Þegar seðlabankar auka peningamagn eru alltaf einhverjir sem fá peningana fyrstir og geta eytt þeim áður en þeir falla í verði og verðbólgan fer af stað. Hann gagnrýndi Keynes einnig fyrir að líta á efnahagslífið sem stóra stærðfræðiformúlu þar sem litið væri framhjá hlutverki einstaklinganna og að þeir hefðu sjálfstæðan vilja. Röpke taldi að einokun væri afleiðing ríkisafskipta og ríkisafskipti og reglugerðir væru ekki rétta leiðin til að koma í veg fyrir efnahagslega samþjöppun. Röpke varaði við pólítískum samruna í Evrópu og taldi efnahagslegu frelsi standa ógn af slíkri samþjöppun á pólítísku valdi. Hann taldi þvert á móti að fullvalda smáríki með frjáls viðskipti sín á milli væru líklegri til að skapa velsæld. Vísaði hann þá til 19. aldar sem fyrirmyndar.