Helgarsprokið 31. október 1999

304. tbl. 3. árg.

Umhverfisverndarsamtök halda því gjarnan fram að frjáls markaður taki ekki tillit til umhverfisins. Þess vegna eru sum þeirra   andvíg einkaeignarrétti á náttúruperlum. Engu að síður eiga flest vandamálin sem þau berjast gegn það sammerkt að þar nýtur frjáls markaðar eða eignarréttar ekki við. Mengun andrúmsloftsins og mengun hafsins eru dæmi um þetta. Enn hafa menn ekki getað skilgreint eignarrétt á andrúmsloftinu með skýrum hætti þótt menn séu farnir að fikra sig áfram með mengunarkvóta. Höf eru ekki í einkaeign. Það hefur bætt umgengni um höfin þar sem nýtingarréttur á einstökum auðlindum þess hefur verið skilgreindur og gengið kaupum og sölum. Slíkur nýtingarréttur fellur í verði ef umgengni er slæm. Íslenska aflamarkskerfið er dæmi hvernig vel skilgreindur eignarréttur hvetur til betri nýtingar náttúruauðlinda. Þær dýrategundir sem eru í einkaeign eru ekki í útrýmingarhættu heldur hinar sem enginn á og vafra um almenninga. Umgengni um almenninga á landi er yfirleitt ekki góð eins og hálendi Íslands ber með sér. Þar hefur ríkið jafnvel styrkt menn til að beita sauðfé á viðkvæm gróðursvæði.

Það er stundum rætt um að þegar fyrirtæki eða einstaklingar komast upp með menga andrúmsloft, haf eða land án þess að greiða fyrir það sé um svonefndan markaðsbrest að ræða. Þetta er þó ekki alveg rétt þar sem það land, haf eða andrúmsloft sem um ræðir er ekki hluti af markaðnum. Sennilegra er, að skýringin sé sú að ekki er skilgreindur eignarréttur á þessum þáttum og að ekki eru viðskipti með slíkan eignarrétt. Vissulega er oft erfitt að skilgreina þennan eignarrétt, ekki síst á andrúmsloftinu. Mengunarkvótar eru þó viðleitni til að takmarka mengun andrúmsloftsins með hagkvæmum hætti þ.e. með því að nýta markaðskerfið. Mengunarkvótar hafa þann kost fram yfir mengunarskatta að fyrirtæki sem geta ekki dregið úr mengun með litlum kostnaði geta keypt kvóta af fyrirtækjum sem geta dregið úr mengun með lítilli fyrirhöfn. Mengunarskattar eru ekki eins sveigjanlegir og geta því leitt til þess að fyrirtæki hætti starfsemi eða flytji til annarra landa þar sem minni kröfur eru gerðar til umhverfismála. Boð og bönn gegn mengun hafa svipuð áhrif og skattarnir.

Eins og oft hefur verið rakið hér í Vef-Þjóðviljanum eru þær upplýsingar sem umhverfisverndarsamtök setja fram og fjölmiðlar birta, ekki alltaf sannleikanum samkvæmar. Í bók sinni Hoodwinking the Nation veltir Julian Simon því fyrir sér hvort allur þessi hræðsluáróður og flóð af röngum upplýsingum sé ef til vill dæmi um markaðsbrest. Hann telur þó að svo sé ekki enda höfum við enga tryggingu fyrir því að markaðurinn gefi alltaf af sér fullkomnar vörur. Frjáls markaður sé þó líklegri til þess en aðrir, til dæmis ríkið. Eins einkennilegt og það er nú virðist alltaf vera mikil eftirspurn eftir heimsendasögum eða fréttum af slæmum atburðum. Simon telur raunar að um einskonar vítahring sé að ræða þegar hræðsluáróður fer að af stað. Fjölmiðlar segja frá hugsanlegum hörmungum vegna mengunar. Fólk verður skelkað. Kannanir sýna svo að fólk hefur áhyggjur. Fjölmiðlar segja frá niðurstöðum þessara kannana. Stjórnmálamenn sjá þessar niðurstöður og ákveða að grípa til aðgerða gegn þessum yfirvofandi hörmungum. Þessar aðgerðir, sem oft eru fremur í orði en á borði, auka svo enn á hræðsluna. Simon bendir jafnframt á að fólk hefur ekki jafnmiklar áhyggjur af þeim þáttum umhverfismála sem það hefur kynnt sér sjálf og þeim sem það hefur eingöngu hefur séð slegið upp í fjölmiðlum.