Stundum skjóta rótum í umræðunni frasar sem verða heilagur sannleikur í munni þeirra sem nota þá mest. Lögformlegt umhverfismat er ágætt dæmi um þetta. Í dag er nóg að segja töfraorðin lögformlegt umhverfismat og þá hafa menn sannleikann á sínu bandi. Það er einnig vinsælt þessa dagana að krefjast þess að utanaðkomandi afskiptum af Ríkisútvarpinu linni eða Ríkisútvarpið fái að vera í friði. Meðal þeirra sem borið hafa upp þessa ósk eru nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins. Síðast Hjálmar Árnason í Degi í fyrir helgi. Þetta gæti vissulega vel komið til álita að láta Ríkisútvarpið í friði ef Ríkisútvarpið léti okkur hin í friði. Ef Ríkisúvatvarpið hætti að senda eftirlitsmenn á heimili fólks og að rukka menn með fógetavaldi fyrir þjónustu sem viðkomandi hefur ekki beðið um er alveg til í dæminu að láta af afskiptum af RÚV. En að landsmenn og stjórnmálamenn hætti að skipta sér af RÚV á meðan stofnunin starfar eftir lögum sem tryggja henni tekjur með lögregluvaldi er fráleitt. Á það fé skattgreiðenda sem RÚV hefur með höndum að vera eftirlitslaust? Stjórnmálamenn eru ekki góðir eftirlitsmenn frekar en aðrir sem hafa eftirlit með annarra manna fé en þeir þurfa þó að fara í gegnum kosningar nokkurra ára fresti. Starfsmenn RÚV þurfa þess ekki.
Ferðalangur í hópi lesenda sendi Vef-Þjóðviljanum þetta bréf um flugstöðvar.