Í gærmorgun voru tímamót í sögu íslensku þjóðarinnar. Þetta er að minnsta kosti sú ályktun sem dyggustu áhorfendur ríkissjónvarpsins drógu, því ríkissjónvarpið var með sérstaka tveggja tíma dagskrá í tilefni af opnun sendiráðs Íslands í Berlín. Já, tilefnið var sem sagt ærið. Íslendingar eru vafalaust allir himinlifandi yfir þessari nýju sendiráðsbyggingu, þ.e.a.s. þangað til þeir heyra hver byggingarkostnaðurinn var, en hann var litlar 360 milljónir króna. 360 milljónir króna voru greiddar fyrir að reisa þak yfir starfsmenn sendiráðs í Þýskalandi.
Það hlýtur að vera gott að byggja fyrir annarra manna fé og þurfa ekki að horfa í aurinn. Annars hefði húsið sjálfsagt orðið eitthvað lágreistara og minna verið varið í að starfa þar eða taka þátt í opnuninni. Og færri mundu hæla byggingarlistinni og vera uppveðraðir af öllu saman. Hins vegar hlýtur það að vera dálítið sérkennilegt fyrir þá sem hafa gaman af að flytja ræður um árþúsundamótin, minnkandi heim og auðveldari samskipti þjóða á milli með nýtilkominni upplýsingahraðbraut, að þurfa svo að útskýra það hvernig á því stendur að leggja þurfi slíkar upphæðir í sendiráð. Eða að útskýra sífellda fjölgun sendiráða. En þeir hafa svo sem litlar áhyggjur af því. Þeir vita að fréttamenn spyrja aldrei slíkra spurninga því fréttamenn eru áhugasamari um þjóðhöfðingja og glæsilegar opnunarhátíðir en svo að þeir láti smáatriði þvælast fyrir sér.
Samþjöppun er ljót að sumra mati. Samþjöppun í atvinnulífinu er sérstaklega ljót að mati vinstri manna. Samþjöppun pólítísks valds á vinstri vængnum er hins vegar þeirra helsti draumur. Nú er mikil umræða um samþjöppun í sjávarútvegi. „Kvótinn er að færast á færri hendur.“ „Örfá fyrirtæki eru að raka til sín aflaheimildum.“ „Verða sjávarútvegsfyrirtækin aðeins fjögur eða fimm eftir nokkur ár?“ Það er þó staðreynd að varla er hægt að finna dreifðari grein á Íslandi en sjávarútveginn, hvort sem miðað er við fjölda eigenda, fjölda fyrirtækja eða landfræðilega dreifingu.
Hluthöfum í sjávarútvegsfyrirtækjum hefur fjölgað mikið undanfarin ár og þeir sem eiga beinan hlut í útgerðum eru núna sennilega á þriðja tug þúsunda, auk hlutabréfasjóða, lífeyrissjóða og annarra fyrirtækja sem eiga stóran hlut í útgerðarfyrirtækjum. Eigendur hlutabréfasjóðanna skipta tugum þúsunda og fleiri eru félagar í lífeyrissjóðum en beðið hafa um það. Það má enginn eiga meira en 10% af kvótanum samkvæmt lögum (sem er óþekkt takmörkun í öðrum greinum og hlýtur að teljast vafasöm) og langt er í að menn rekist upp undir það þak. Þá er starfsemi þessara fyrirtækja dreifð um allt land og þeir sem hafa hagsmuni af fyrirtækjunum eru því afar stór hópur.
Samþjöppun er því ekki vandamál í sjávarútvegi á Íslandi, en vel má vera að sú staðreynd sé frekar til ills en góðs fyrir sjávarútveginn. Þegar eignaraðild er mjög dreifð getur verið erfiðara en ella að ná fram nauðsynlegri hagræðingu í greininni, því viðskiptakostnaðurinn verður hærri. Meiri samþjöppun væri því að öllum líkindum æskileg fyrir sjávarútveginn.