Í dag eru liðnir 999 dagar frá því útgáfa Vefþjóðviljans hófst og í dag kemur út þúsundasta tölublað hans. Vefþjóðviljinn mun ekki efna til hátíðarhalda af þessu tilefni en vill nota tækifærið til að þakka lesendum sínum samfylgdina. Sérstaklega hugsar hann til þeirra lesenda sem hafa létt honum lífið með fjárframlögum og einnig til þeirra sem hafa skrifað honum, hvort sem þeir hafa átt það erindi að þakka fyrir útgáfuna eða biðja ritstjórnina aldrei þrífast. Hvorir tveggju hafa fyrir sitt leyti minnt á nauðsyn útgáfunnar.
Byggðamál voru til umfjöllunar í þætti í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Í þættinum var ekki gerð minnsta tilraun til að fá fram andstæð sjónarmið, heldur var greinilegt að þáttarstjórnanda var kappsmál að fá það fram að ríkisvaldið yrði að grípa til „aðgerða“ vegna byggðaþróunar. Talað var um að allir væru þeirrar skoðunar að byggðaþróun væri af hinu illa. Svo er þó ekki og sumir eru þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að byggð þróist með þeim hætti sem fólk kýs, þó Ríkissjónvarpið sjái ekki ástæðu til að geta þess.
Tvær hugmyndir öðrum athyglisverðari komu fram í þættinum. Önnur er sú að „nota“ skattkerfið (eðlilegra væri að tala um að misnota í þessu sambandi) til að halda fólki á landsbyggðinni og hin er að beita „handafli“ til að ná sama árangri. Að láta sér detta í hug að skattleggja suma landsmenn þyngra en aðra af þeirri ástæðu einni að þeir búa í þéttbýli er afar sérstakt svo ekki sé meira sagt. Líklega kemur sú hugmynd þó ekki til álita, enda benti forsætisráðherra á það í þættinum að stjórnarskráin gerði ráð fyrir að allir ættu að sitja við sama borð hvað skatta varðar.
Hugmyndin um að beita handafli er litlu skárri. Handaflsaðgerðir hafa fyrir löngu afsannað sig og með þeim næst enginn árangur hvorki í byggðamálum né öðrum. Þær ríkisstjórnir sem starfað hafa frá því eftir kosningar 1991 hafa horfið frá þessari gömlu stefnu, en þó með einni stórri undantekningu. Sú undantekning var kölluð Vestfjarðaaðstoð og gekk út á að dæla nokkur hundruð milljónum til Vestfjarða. Árangurinn varð enginn og í þættinum í gær kom fram hjá formanni Alþýðusambands Vestfjarða að enginn vissi hvert peningarnir hefðu farið. En þetta er einmitt eðli slíkra handaflsaðgerða. Fjármunirnir fara þangað sem þeir ættu alls ekki að fara, þ.e. í óhagkvæman rekstur, og hverfa þar í botnlausa hít. Allar „aðgerðir“ í byggðamálum eru dæmdar til að mistakast og eina rétta byggðastefnan er að ríkið láti fólk í friði en reyni ekki að hafa áhrif á hvar það velur sér búsetu.