Fimmtudagur 7. október 1999

280. tbl. 3. árg.

„Þú getur haft eftirlit með þeim, sett reglur um þau og skattlagt þau. Ef þú lögleiðir þau gætum við haft heilbrigðara þjóðfélag… Ég er ekki fylgjandi fíkniefnum. Ég er á móti þeim. Ættirðu að fara í fangelsi fyrir það eitt að taka fíkniefni? Nei, segi ég. Ég segi að þú ættir ekki að gera það,“ sagði Gary Johnson, ríkisstjóri Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum, á ráðstefnu Cato stofnunarinnar um fíkniefni sem haldin var síðastliðinn þriðjudag. Tilgangurinn með ráðstefnunni var að sýna fram á skaðsemi þess að banna notkun fíkniefna og færa rök fyrir því að rétt sé að hætta að banna notkun þeirra.

Fyrir áratug setti bandaríska ríkið sér það markmið að Bandaríkin yrðu fíkniefnalaus árið 1995. Það vita allir hvernig fór og að jafn auðvelt er að nálgast fíkniefni nú og það var þá. Færri virðast hins vegar gera sér grein fyrir þeim gífurlega kostnaði og þeim mikla fjölda sem settur hefur verið í fangelsi vegna brota á hinum skaðlegu og ranglátu fíkniefnalögum.

Hér á landi er mikið fár þessa dagana vegna þess sem kallað er „stóra fíkniefnamálið“. Fjölmiðlar gera lítið til að halda uppi vitrænni umræðu um fíkniefnavandann en eltast þess í stað við að birta myndir og nöfn þeirra sem handteknir hafa verið í tengslum við málið. Farið er með grunaða eins og dæmda glæpamenn og fjölmiðlar virðast ekki sætta sig við það hlutverk að vera það sem þeir þó stundum hreykja sér af, þ.e. fjórða valdið. Þeir virðast sumir helst óska þess að taka að sér dómsvaldið líka. Hvenær skyldi umræðan hér komast á sama stig og í nágrannalöndunum þar sem opinberar rökræður fara fram um réttmæti fíkniefnabannsins í stað þess að einblínt sé á að ná andlitsmyndum af grunuðum?