Miðvikudagur 6. október 1999

279. tbl. 3. árg.

Hinn 24. apríl síðastliðinn birti Vef-Þjóðviljinn brot úr viðtali við Ágúst Einarsson í Sjávarfréttum frá árinu 1989 þar sem hann flytur mikla málsvörn fyrir aflamarkskerfið í sjávarútvegi. Þessi málsvörn var borin undir Ágúst í sjónvarpsþætti á Skjá 1 fyrir kosningar í vor en Ágúst var sem kunnugt er í kjöri fyrir fylkingu vinstri manna sem vill kasta aflamarkskerfinu út í hafsauga eins og raunar önnur stjórnmálasamtök sem Ágúst hefur hlaupið úr og í síðastliðin áratug. Í sjónvarpsþættinum svaraði Ágúst því til að ekkert væri að marka svona „tíu ára gömul“ ummæli þótt þau væru frá honum sjálfum komin. Gott og vel. En hvað með fimm ára gömul ummæli? Eru þau líka dauð og ómerk? Í janúar árið 1994 ritaði Ágúst grein í Morgunblaðið ásamt Ragnari Árnasyni prófessor til varnar kvótakerfinu og til að svara þeirri fullyrðingu Gísla Pálssonar prófessors að kvótinn hafi safnast á færri hendur og myndast hafi „lénsveldi“ í íslenskum sjávarútvegi. Ágústi tekst svo vel til í þessari grein að ekki stendur steinn yfir steini í kenningu Gísla eftir lestur hennar.

Fiskur
Fiskur

Um kvótakerfið sjálft segir í greininni: „Aflamarkskerfið skapar forsendur fyrir hagkvæmri nýtingu fiskistofnanna. Fiskiskipaflotinn er iðulega allt of stór þegar kvótakerfi er sett á. Vel hannað kvótakerfi leiðir þá til minnkunar flotans og þar með oftast til fækkunar og hlutfallslegrar stækkunar fyrirtækja. Ef staðan er á hinn bóginn sú að flotinn er of lítill þegar kvótakerfi er sett á er líklegt að niðurstaðan yrði á hinn veginn. Framsal veiðiheimilda er til að ná fram aukinni hagkvæmni og er undirstaða núverandi kvótakerfis. Hagkvæmasta nýting auðlindanna næst ekki ef framsal er óheimilt innan kerfisins. Hér skiptir litlu hvort veiðileyfi séu seld eða leigð af ríkisvaldinu, sérstakur skattur lagður á útgerðarfyrirtæki eða öðru formi gjaldtöku fyrir veiðiheimildir komið á. Það er því miður alltof algengt í umræðu um fiskveiðistjórnun að ruglað er saman stjórnkerfinu sjálfu og gjaldtöku. Stjórnkerfi okkar fiskveiða, þ.e. framseljanlegir hlutdeildarkvótar, er viðurkennt sem hagkvæmasta stjórnkerfi sem þekkist við fiskveiðar. Vitanlega er hægt að koma fyrir gjaldtöku innan þess kerfis. Ágreiningur um skiptingu fiskveiðiarðsins má hins vegar ekki leiða til þess að góðu stjórnkerfi sé hafnað.“

Þessi orð eru í ágætu samræmi við orð Ágústs frá árinu 1989 sem hann hefur lýst ómerk og hljóta því að vera ógild líka. Það væri forvitnilegt að vita hversu lengi orð Ágústs standa yfirleitt. Ef til vill svipaða stund og viðdvöl hans í hinum ýmsu stjórnmálasamtökum?

Vef-Þjóðviljinn minnir á að hann er rekinn fyrir frjáls framlög. Það breytist ekki þótt árin líði.