Svarta bókin svokallaða, sem er bók Samtaka skattgreiðenda í Þýskalandi, er komin út fyrir árið 1999. Í bókinni er fjallað um sóun hins opinbera á fjármunum skattgreiðenda og eru dæmin mýmörg. Ekki þarf að koma á óvart að sum minna á það sem sést hefur hjá hinu opinbera hér á landi. Rétt að taka fram að ekki er verið að tala um sóun á borð við niðurgreiðslur eða aðrar millifærslur, heldur einungis það sem ef til vill mætti kalla hreint bruðl. Þessi þýsku samtök áætla að sóun hins opinbera þar í landi nemi um 60 milljörðum marka yfir árið, en þess má geta að það er tvöföld sú upphæð sem fjármálaráðherra Þýskalands hyggst spara með niðurskurði í næstu fjárlögum.
Ef þessi tala er heimfærð upp á Ísland, þ.e. gert ráð fyrir að hér eru færri hausar og að krónan hefur annað verðgildi en þýska markið, þá fæst út að þetta jafngildir um 7 milljarða króna skattasóun eða -bruðli á ári hér á landi. Fróðlegt væri að sjá, ef sambærilegir útreikningar væru gerðir hér á landi, hver niðurstaðan yrði, en ekki er fráleitt að ætla að hún yrði af svipaðri stærðargráðu.
Hver þekkir svo sem ekki dæmi um sóun hins opinbera? Hver getur ekki nefnt byggingu sem er óþarflega glæsileg og dýr? Hver veit ekki um ferðalög opinberra starfsmanna sem hefðu mátt missa sín? Hver kannast ekki við að hrært sé með skipulag fram og til baka með kostnaðarsömum breytingum? Og hver getur ekki nefnt skýrslu frá hinu opinbera sem hefði eins mátt vera ósamin? Allir þekkja dæmi á borð við það sem hér er nefnt og fjölmargt annað, en flestum þykir jafnframt að lítið sem ekkert sé hægt að gera til að koma í veg fyrir þetta. Ein leið er bæði einföld og óbrigðul til að draga úr sóun hjá hinu opinbera, en hún er að fækka verkefnum þess. Sú leið er jafnframt sú eina sem dugar, því það leiðir af eðli opinbers rekstrar að þar viðgengst sóun. Því meiri opinber rekstur, þeim mun meiri sóun.