Fimmtudagur 30. september 1999

273. tbl. 3. árg.

Í Viðskiptablaðinu í gær er fjallað um hallarekstur sveitarfélaga. Þar kemur m.a. fram að bæði ríki og sveitarfélög voru rekin með halla frá 1984 fram til ársins 1997 þegar ríkissjóður var loks rekinn með afgangi en sveitarfélögin hafa haldið áfram að safna skuldum. Það vekur ekki síst athygli að sveitarfélögin rétta ekki úr kútnum í hagvexti síðustu ára heldur sígur þvert á móti á ógæfuhliðina síðustu tvö ár. Sveitarfélögin hafa tekið að sér ný verkefni undanfarin ár og stærst þeirra er rekstur grunnskólans. Ein af röksemdum þess að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga er að nálægð sveitarstjórnarpólítíkusa við fólkið sé meiri en þeirra sem sitja á Alþingi. Þetta er vafalaust rétt og sveitarstjórnarmenn skynja ef til vill betur en þingmenn hvar vantar nýja skólastofu, fleiri dagvistarpláss, fleiri akreinar o.s.frv.

Sveitarstjórnarmenn eru þó ekki síður pólítíkusar en þingmenn. Þeir þurfa á stuðningi að halda í prófkjöri rétt eins og hinir. Þeir þurfa að ná kjöri í næstu kosningum. Þeir eru hins vegar jafnvel enn viðkvæmari en þingmenn fyrir kröfum hagsmunahópanna. Einmitt vegna þeirrar nálægðar við kjósendur sem marglofuð er þegar verkefni eru flutt frá ríki til sveitarfélaga. Hvað á bæjarfulltrúi að segja þegar stjórn íþróttafélagsins á staðnum heimtar nýtt íþróttahús, þegar leikfélagið fer fram á ný sæti og lýsingu í félagsheimilið og þegar sóknarnefndin vill betri veg heim að kirkjunni? Nei þýðir líka nei í næsta prófkjöri. Eina leiðin til að draga úr áhrifum þrýstihópanna er að fækka þeim verkefnum sem ríki og sveitarfélög hafa á sinni könnu. Hvers vegna á bæjarstjórnin að sækja sorp heim til fólks, velja dagheimili fyrir börnin og byggja íþróttavelli fyrir boltaáhugamenn? Það eru til einkarekin sorphirðufyrirtæki. Það eru til einkareknir leikskólar. Það eru til einkareknar líkamsræktarstöðvar. Er ekki rétt að nýta kosti nálægðarinnar til fulls og leyfa fólkinu (sem er jú í mestri nálægð við sjálft sig) að velja úr þessari þjónustu sjálft?