Nú var stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna að ákveða að bjóða út gerð auglýsinga fyrir sjóðinn en slíkt útboð mun síðast hafa farið fram fyrir nokkrum árum. Hefur þetta verið rætt fram og til baka í fjölmiðlum og margir haft skoðun á þessum málum. En enginn hefur spurt þeirrar spurningar sem Vefþjóðviljanum dettur helst í hug: Af hverju á Lánasjóðurinn að vera að auglýsa? Halda menn að námsmenn viti ekki af sjóðnum? Er ekki nóg að hafa útlánareglur og önnur atriði sem kunna að skipta styrkþegana máli, á netinu? Þó menn séu að reka sjóð til að niðurgreiða lán til þeirra landsmanna sem láta svo lítið að stunda niðurgreitt nám, ættu þeir samt að reyna að tapa ekki meira en þeir nauðsynlega þurfa.
Samkeppnisstofnun stóð við hótun sína frá því um daginn um að enginn sé óhultur fyrir henni og ruddist með aðstoð lögreglu inn í fyrirtæki í einkaeigu. Þessi fyrirtæki stunda verslun með grænmeti og liggja nú undir grun um að stunda viðskiptin með grænmetið ekki með réttum hætti. Það er nefnilega svo hér á landi og víðar að ríkið hefur sett reglur um það hvernig fyrirtæki eiga að haga starfsemi sinni. Þessar reglur lúta ekki að því að fyrirtækin skuli ekki svíkja fé út úr viðskiptavinum sínum eða fremja önnur raunveruleg brot. Þær fjalla þess í stað um að fyrirtækjum beri að stunda samkeppni með einhverjum tilteknum hætti.
Með þessum reglum er ríkisvaldið komið út á afar hálan ís og þegar framkvæmd þeirra er orðin með þeim hætti sem sést hefur hér á landi og einkafyrirtæki geta ekki lengur stundað viðskipti óáreitt, þá er orðið tímabært að staldra við. Taka þarf starfsemi Samkeppnisstofnunar til endurskoðunar og þrengja verksvið hennar eða leggja hana niður. Það getur ekki staðist að einkafyrirtæki þurfi að óttast að fá her opinberra starfsmanna inn á skrifstofur sínar með þeirri skýringu að fyrirtækið hafi ef til vill ekki stundað rétta samkeppni þó ekkert sé annars við starfsemi fyrirtækisins að athuga og að það hafi ekki á rétti nokkurs manns brotið.