Þessa dagana er enn eitt málið í gangi sem nefnt er stóra fíkniefnamálið. Þó telja fróðir menn að magn þeirra fíkniefna sem lögreglan lagði hald á í þetta skiptið sé ekki stórt hlutfall af þeim fíkniefnum sem neytt er hér árlega, ekki frekar en í öðrum stórum fíkniefnamálum. Í síðasta stóra fíkniefnamálinu var maður ákærður fyrir innflutning fíkniefna en sýknaður í hæstarétti. Það skortir því ekki nýlega áminningu til lögreglu og fjölmiðla um að fara sér hægt við að úthrópa þá sem grunaðir eru um fíkniefnamisferli. Í stóra fíkniefnamálinu um þessar mundir hafa fjölmiðlar með aðstoð lögreglu ekki aðeins skýrt frá nöfnum hinna grunuðu og uppnefnum þeirra heldur einnig sýnt myndir af einkabílum þeirra, heimilum og vinnustöðum. Í DV í gær var svo birt andlitsmynd í lit af einum þeirra. Jafnframt hafa fjölmiðlar með DV fremst í flokki rætt við unnustur, foreldra, nágranna og vinnufélaga hinna grunuðu og haft eftir þeim hvers kyns upplýsingar um mennina. DV hafði til dæmis eftir einum nágranna að unnusta hins grunaða væri hugguleg og að hann hefði greitt 79 þúsund í húsaleigu. Auk þess var greint frá því mikilvæga atriði að nágranninn taldi að hinum grunaða hefði ekki þótt þetta há leiga.
Nú telja vafalaust margir að fíkniefnabrot séu afar alvarleg brot. Um það má deila en ekki hitt að morð og líkamsárásir eru alvarleg brot. Þó fá grunaðir í slíkum málum ekki viðlíka meðferð í fjölmiðlum og grunaðir í fíkniefnamálum. Bæði lögregla og fjölmiðlar mættu athuga sinn gang hvað þetta varður og í það minnsta gæta samræmis. Menn eiga að njóta vafans þar til þeir eru fundnir sekir. Lögreglan hefur haft svonefndar glæsibifreiðir hinna grunuðu til sýnis og kynnt það sérstaklega fyrir fjölmiðlum og almenningi hve mikill gróði sé af fíkniefnasölu. Fælir það menn frá starfi fíknefnasalans þegar það er auglýst svo rækilega að starfinu fylgi glæsibifreið og gífurlegar fjárhæðir í tekjur?