Umhverfisverndarsamtökin PETA hafa hrint af stað herferð til að upplýsa fólk um að þegar fiskur er myrtur sé hann hræddur, kvalinn og kafni smám saman um leið og hann er hífður upp úr vatninu, segir í frétt í Morgunblaðinu í gær. Í fréttinni er vitnað í talsmann PETA sem segir fæsta hafa velt því fyrir sér að fiskar finni líka til. Í sama blaði kemur fram að á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva hafi Jón Reynir Magnússon forstjóri SR-Mjöls hf. lýst yfir áhyggjum vegna þess skaða sem umhverfisverndarsamtök geti valdið íslenskum sjávarútvegi fái baráttumál þeirra hljómgrunn. Til marks um hve öfgafull ýmis stór umhverfisverndarsamtök eru orðin nefndi Jón að samtökin World Wide Fund for Nature (WWF) væru í eðli sínu andvíg öllu drápi á villtum dýrum, þar á meðal fiski.
Þessi orð forstjóra SR-Mjöls minna á hve mikilvægt það er fyrir íslenskan sjávarútveg að geta sýnt fram á að hann gangi ekki nærri fiskistofnum. Frjálsa aflamarkskerfið hefur gert íslenska útgerðarmenn hófsama í kröfum um árlegar aflaheimildir enda bitnar ofveiði á verðmæti veiðiheimilda. Þegar fiskistofnarnir eru ofnýttir lækkar verð á veiðiheimildunum. Það eru hins vegar enn sem komið er stjórnmálamenn sem ákveða leyfilegan heildarafla. Stjórnmálamenn eru kosnir á nokkurra ára fresti og freistast oft til að láta skammtímahagsmuni ráða ferðinni, ekki síst skömmu fyrir kosningar. Til lengri tíma litið hlýtur að vera heppilegra að handhafar veiðiheimilda taki ákvörðun um leyfilegan heildarafla enda eiga þeir mest undir því að skynsamlega sé staðið að málum. Þeir gætu þá einnig tekið við hafrannsóknum, veiðieftirliti og öðrum kostnaði sem fellur á skattgreiðendur í dag vegna útgerðarinnar.
Í DV á mánudaginn var sagt frá því að liðsmenn Grósku félags ungra fylkingarmanna hefðu lagst svo lágt að dylgja um einkalíf nafngreinds fólks í skrifum sínum á heimasíðu félagsins. Nokkru síðar voru þessi sóðalegu skrif fjarlægð af síðunni. Samkvæmt DV bar Björgvin G. Sigurðsson ábyrgð á skrifunum. Í DV í gær er athugasemd frá Björgvin þar sem segir: Björgvin vildi hins vegar koma því á framfæri að stjórn Grósku sæi um ritstjórn vefsíðunnar og hefði gert síðan í desember á síðasta ári. Hann bæri því enga ábyrgð á skrifunum….
Í Morgunblaðinu hinn 20. janúar síðastliðinn er hins vegar viðtal við Björgvin G. Sigurðsson vegna heimasíðunnar. Þar kemur fram að Björgvin sé ritstjóri síðunnar og stjórnarmaður í Grósku en með honum starfi ritnefnd.
Þetta er afar sérstök atburðarás. Björgvin segist nú hafa hætt afskiptum af heimasíðunni í desember 1998 og ábyrgðin á síðunni sé hjá stjórn Grósku. Engu að síður lét Björgvin taka viðtal við sig sem ritstjóra síðunnar og stjórnarmann í Grósku í Morgunblaðinu í janúar 1999.