Miðvikudagur 22. september 1999

265. tbl. 3. árg.

Í lögum um tekjuskatt og eignaskatt er kveðið á um hvaða frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri fyrirtæki mega nýta sér. Undir þessa heimild falla „einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa“, eins og segir í lögunum. Sem von er hafa stjórnmálaflokkar nýtt sér þetta ákvæði til að afla sér fjár frá fyrirtækjum. Þetta ákvæði gerir fyrirtækjum kleift að styrkja stjórnmálaflokka og draga styrkina frá tekjum sínum eins og venjuleg rekstrargjöld. Nú er ekki til nein sérstök skilgreining á stjórnmálaflokki en gera má ráð fyrir að hugtakið sé túlkað þröngt í þessu sambandi.

fylkingin
fylkingin

Fyrir þingkosningar í vor munu fulltrúar fylkingar vinstri manna hafa gengið á fund forsvarsmanna fyrirtækja og beðið um fjárframlög í baráttuna. Þau fyrirtæki sem styrktu fylkinguna hafa væntanlega gert það í trausti þess að styrkirnir væru frádráttarbærir frá rekstrartekjum. Í DV á mánudaginn er hins vegar rætt við nokkra þingmenn sem stóðu að þessari fylkingu síðasta vor og þeir inntir eftir því hvort ekki verði stofnaður stjórnmálaflokkur um fylkinguna. Þar er haft eftir Margréti Frímannsdóttur að það sé óábyrgt að fullyrða nokkuð um það á þessu stigi hvort einhverjar hindranir séu í vegi fyrir að stofna flokkinn. Margrét bætir svo við: „Við stofnum hvorki flokk né gerum annað bara í ljósi skoðanakannana“. Ásta Ragnaheiður Jóhannesdóttir segir: „Það er vandamál hreyfingar sem ekki er orðin að stjórnmálaflokki að hún nær sér ekki á strik. Þess vegna er það grundvallaratriðið að flokkurinn verði til sem fyrst.“ Eftir Guðrúnu Ögmundsdóttur er haft: „En það er verið að vinna að því að stofna stjórnmálaflokk til að gera þetta allt stöðugra og þingmannahópurinn hefur alla burði til að standa sig mjög vel.“

Hér eru mjög afdráttarlausar yfirlýsingar frá aðstandendum fylkingarinnar um að hún sé ekki stjórnmálaflokkur. Fyrirtækin sem hafa styrkt hana fjárhagslega fram að þessu þurfa því að greiða tekjuskatt af framlögum sínum. Nema fylkingunni takist að sannfæra skattayfirvöld um að hún sé stjórnmálaflokkur í skattalegum skilningi þó hún sé það ekki í raunveruleikanum.