Þriðjudagur 21. september 1999

264. tbl. 3. árg.

Landsmenn hafa víst heyrt af því undanfarið að svo mikill niðurskurður sé hjá hinu opinbera að nú verði vart hægt að sinna brýnustu löggæslustörfum. Glæpamenn munu víst ganga lausir ef fram heldur sem horfir, þ.e. ef lögreglumenn fá ekki launahækkun og lögreglustjóraembætti meira fé. Hvergi er víst kostur á niðurskurði eða hagræðingu hjá lögreglunni ef marka má fréttir og hver króna er nýtt til hins ýtrasta.

Í ljósi þessa má vera ljóst hve alvarlegur sá glæpur var talinn að setja spjald með orðinu „VINNU” fyrir ofan einkanúmerið „LYFTUR” á bíl frá fyrirtækinu Vinnulyftum ehf. Lögreglan gómaði bíl og ökumann fyrirtækisins og hóf hið opinbera í framhaldi af því mál gegn fyrirtækinu fyrir þetta meinta alvarlega brot. Málinu var fylgt eftir alla leið upp í hæstarétt þar sem dómur féll Vinnulyftum í vil. Á bíl fyrirtækisins mun nú hanga VINNU-spjaldið lögreglunni til ama.

Getur verið að þetta dæmi sýni að lögreglan getur nýtt fjármuni betur og haldið sig við að elta glæpamenn en ekki þá sem augljóslega eru ekki að gera neitt sérstakt af sér? Er þrátt fyrir allt möguleiki fyrir lögregluna eins og aðrar stofnanir ríkisins að draga úr starfsemi á sumum sviðum án þess að þjónustan verði ómöguleg og þjóðinni sé stefnt í voða?