Mánudagur 20. september 1999

263. tbl. 3. árg.

Íþróttir eru eitt vinsælasta sjónvarpsefnið. Það er enda enginn hörgull á íþróttum í sjónvarpinu. Ríkissjónvarpið er rekið á þeirri forsendu að það sendi út dagskrá til landsmanna sem þeir eiga ekki kost á eftir öðrum leiðum. Stuðningsmenn þess að ríkið reki sjónvarpsstöð leggja ekki litla áherslu á að ríkissjónvarpið gegni sérstöku hlutverki og eigi að sinna þeim þörfum sem einkastöðvarnar geri ekki. Þetta er oft nefnt „menningarhlutverk“. Það er því ekki alveg ljóst hvers vegna Ríkissjónvarpið sendir yfirleitt út íþróttir en það sendir svo sem einnig út Derrick, sjónvarpsmarkað, skjáleik, Star Trek og fleira sem vart getur talist svo sérstakt sjónvarpsefni að ríkisvaldið þurfi að grípa til þess óyndisúrræðis að skattleggja borgarana til að tryggja að þessir dagskrárliðir berist inn á hvert heimili. Sérstaklega vekur furðu að Ríkissjónvarpið tekur að sér að senda út frá íþróttakappleikjum sem eru svo vinsælir að Ríkissjónvarpið hikar ekki við að ýta öðru efni til hliðar.

Í Morgunblaðinu í gær var fjallað ítarlega um hugmyndir yfirmanna Ríkissjónvarpsins um að hefja útsendingar á annarri sjónvarpsrás. Helsta ástæðan sem þeir nefna fyrir því að sjónvarpa á annarri rás er að þar megi koma íþróttaútsendingum fyrir. Björn Bjarnason menntamálaráðherra er einnig inntur álits og útilokar alls ekki að Ríkissjónvarpið auki umsvif sín með þessum hætti. Það er merkilegt að ráðherrann taki svo vel í aukin ríkisumsvif, ekki síst þegar það er haft í huga að ný einkarekin sjónvarpsstöð er í þann mund að hasla sér völl og gæti nýtt þá VHF rás sem ríkissjónvarpsmenn hugsa sér að nota undir íþróttir. Það væri saga til næsta bæjar ef ráðherrann tæki ríkisreksturinn fram yfir einkareksturinn ef í það fer að Skjár 1 sækist eftir VHF rásinni.

Nú er svo komið að Knattspyrnufélagið Valur hefur minni þörf fyrir íþróttasali sína en áður var og því hafa þeir verið leigðir Háskóla Íslands. Háskólinn hefur hins vegar mikla þörf fyrir salina, því þar er allt orðið yfirfullt af námsfúsum stúdentum. Þessi fjölgun stúdenta hefur hins vegar þá dökku hlið að vera skattgreiðendum erfið fjárhagslega, því stúdentar greiða ekki nema lítið brot af kostnaði sjálfir. Sú staðreynd kann hins vegar líka að skýra hinn mikla fjölda í Háskólanum, enda má gera ráð fyrir að þegar vara eða þjónusta er niðurgreidd kalli það á umframeftirspurn. Væru stúdentar við Háskólann látnir greiða sjálfir fyrir nám sitt mundi húsnæðisvandinn væntanlega leysast á svipstundu og námið allt verða betra. Stúdentar mundu gera meiri kröfur um gæði þess sem þeir væru að kaupa, þ.e. námsins, og háskólayfirvöld og kennarar mundu leggja sig meira fram til að neytendurnir, þ.e. nemendurnir, fengju eins mikið fyrir peningana sína og unnt er.