Helgarsprokið 19. september 1999

262. tbl. 3. árg.

Umræður um menningarmál og stuðning ríkisins við þau geta oft á tíðum verið áhugaverðar. Oftar en ekki verða slíkar umræður hins vegar því miður tilfinningaþrungar og í stað þess að rökum sé beitt er reynt að níða fólk sem hefur tiltekna skoðun á málefninu. Slík umræða er óþolandi. Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari bjóða upp á allt það versta í menningarmálaumræðunni í stuttri grein (sem þær kalla yfirlýsingu) í Morgunblaðinu s.l. fimmtudag. Engin tilraun er gerð til að fjalla um málefni og þess í stað gerð tilraun til að mála þá mynd af andstæðingum ríkisstyrkja til menningarmála að þeir séu fákunnandi barbarar sem horn hafi í síðu listsköpunar.

Vef-Þjóðviljinn hefur áður fjallað um ýmis mál er falla undir menningu og það þarf engum að dyljast að ritið er eindreginn andstæðingur ríkisstykja til menningarmála. Nákvæmlega á sama hátt er ritið andvígt ríkisstyrkjum til íþróttamála, trúariðkunar o.s.frv. Þetta þýðir alls ekki að það hafi horn í síðu fólks sem skapar menningu eða sækir menningarviðburði, íþróttamanna eða áhorfenda á íþróttakappleikjum og enn síður trúaðra og þeirra sem boða fagnaðarerindi. Vef-Þjóðviljinn er einfaldlega andvígur afskiptum ríkisins af þessum málaflokkum (og fleirum).

En víkjum aftur að greinarkorni Bryndísar og Steinunnar sem báðar eru virtar listakonur. Þær kjósa eins og áður sagði að nefna greinarkorn sitt yfirlýsingu og má af því og innihaldi yfirlýsingarinnar ráða að þær telja það hlutverk sitt að upplýsa fákunnandi almenning um hvað sé honum fyrir bestu og að ekki sé rétt að taka nokkurt mark á málflutingi þeirra sem tala fyrir auknu valfrelsi einstaklinga. Rök virðast óþörf. Og þar af leiðandi sé málefnaleg rökræða fullkomlega óþörf og nægjanlegt að leiða málið til lykta með stuttri „yfirlýsingu“.

Tilefni árása sinna á andstæðinga ríkisstyrkja til menningarstarfs tilgreina listamennirnir „ítrekaðar ályktanir frá SUS, Sambandi ungra sjálfstæðismanna, um listamannalaun og byggingu tónlistarhúss“. Vef-Þjóðviljinn getur ekki svarað fyrir hönd SUS en getur hins vegar fullyrt að stærstur hópur þess fólks sem andvígt er ríkisstyrkjum til menningarstarfsemi er það hvorki af illum hug til þeirra sem skapa list né heldur þeirra sem njóta hennar. Yfirlýsingar eins og sú sem Steinunn og Bryndís senda frá sér eru hins vegar eindregið til þess fallnar að auka fordóma í garð listamanna.