Laugardagur 18. september 1999

261. tbl. 3. árg.

„Að endingu óska ég þess að eftirstandandi eigur mínar, renni að mér látnum, til míns gamla vinar… ríkisskattstjóra.“

Þó Vefþjóðviljanum þyki í raun fremur ósennilegt að margir landsmenn hafi hugsað sér að arfleiða ríkisskattstjóra að eigum sínum eða að algengt sé að menn minnist hans sérstaklega á banabeði sínu, er það nú samt svo að á hverju ári fær ríkissjóður um 10 milljónir króna í arf eftir látna landsmenn. Og er þá ekki átt við það sem ríkið tekur til í erfðafjárskatt, sem er líklega með ógeðfelldari sköttum. Nei, hér er vísað til þess að samkvæmt erfðalögum renna eigur þess látna manns, sem ekki á annan erfingja, til svo kallaðs erfðafjársjóðs.

arfur.jpg (13307 bytes)
arfur.jpg (13307 bytes)

Erfingjar manns geta verið ýmsir og eru þeir taldir upp í erfðalögum og þar meðal annars kveðið á um röð þeirra og arfshlut. Sá maður á erfingja sem lætur eftir sig maka, börn (þar á meðal kjörbörn), foreldra eða afkomendur þeirra eða afa, ömmu eða börn þeirra. Einnig geta erft hann þeir sem hann hefur veitt erfðarétt með gildri erfðaskrá. Af þessu má ráða að þeir eru ekki margir sem falla frá og eiga engan slíkan erfingja. Engu að síður berst erfðafjársjóði árlega tugur milljóna króna eftir slíka menn. Hefðu þeir hins vegar ráðstafað eigum sínum með erfðaskrá, t.d. til vina sinna, líknarfélaga eða annarra aðila sem þeir hefðu viljað styrkja eftir sinn dag, hefði mestallt þetta fé runnið þangað en ekki í erfðafjársjóð. Reyndar er ekki gott að segja, hvers vegna erfðafjársjóður á eiginlega að standa til arfs eftir þessa menn. Spyrja má hvort ekki sé rétt að skipa málum þannig að einhverjir þeir aðilar, sem hinn látni hefur tengt sig á lífsleiðinni, standi nær ríkissjóði. Hér kæmi trúfélag mannsins til álita og einnig mætti ímynda sér að setja mætti reglur um að þau félög, sem hann hefur af fúsum og frjálsum vilja tilheyrt, kæmu þar til greina.

 
Fleiri atriðum má skipa með erfðaskrá. Eitt er það sem ekki allir hugsa út í en getur skipt þeirra nánustu talsverðu máli. Sá, sem lætur eftir sig maka og börn sem ekki eru jafnframt börn makans, getur með erfðaskrá veitt makanum leyfi til að sitja áfram í óskiptu búi án samþykkis stjúpniðjanna, en hafi hann ekki gert það, geta stjúpniðjarnir, börnin sem hinn látni átti en makinn ekki, krafist skipta á búinu.
Erfðaskrá er hins vegar ritverk sem fæstir koma í verk að setja saman. Og víst er um það, að erfðaskrá þarf að uppfylla all strangar formreglur til að teljast gild og seint verður því haldið fram að það beinlínis borgi sig fyrir menn að standa í því umstangi.