Ein leið til þess að fylgjast með hræringum og straumum í þjóðfélaginu er að fylgjast með þeim námskeiðum sem boðið er upp á hverju sinni. Þau endurspegla að einhverju leyti áhugamál landsmanna, segja til um hvar vöxturinn er mestur. Í fyrra bauð Endurmenntunarstofnun til dæmis upp á námskeiðið Danska fyrir ríkisstarfsmenn. Í haust býður stofnunin hins vegar upp á námskeiðið Gerð umsókna um kynningarstyrki ESB. Námskeiðið er ætlað fulltrúum fyrirtækja sem hafa áhuga á að sækja um styrki til rannsóknar- og þróunarverkefna innan 5. rammaáætlunar ESB og vilja gera þá umsókn sem best úr garði. Námskeiðið stendur í þrjá daga, þrjá tíma í senn.
Þegar opinberir aðilar taka að sér að styrkja ákveðin fyrirtæki með skattfé sem þeir hafa tekið af einstaklingum og fyrirtækjum þurfa starfsmenn fyrirtækja að eyða tíma í að semja umsóknir og fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru fyrir styrkveitingu þ.e. til þess að fá til baka (og stundum ríflega það) sem áður var tekið af þeim með skattheimtu. Þegar skriffinnskan er orðin yfirgengileg í kringum þetta er víst ekki vanþörf á að hið opinbera bjóði upp á þriggja daga námskeið í sjóðasukki. Það eina sem vantar er styrkur frá hinu opinbera til að komast á námskeiðið.