Sá sem ræður annan mann til vinnu á mjög erfitt með að losna við hann úr þjónustu sinni ef aðrir starfsmenn kjósa hinn trúnaðarmann sinn. Samkvæmt gildandi lögum, (nr. 80/1938), má ekki segja slíkum trúnaðarmanni upp störfum vegna þess sem hann kann að gera sem trúnaðarmaður. Þurfi atvinnurekandi að fækka starfsmönnum er honum meira að segja fyrirskipað að láta trúnaðarmanninn almennt halda vinnunni öðrum starfsmönnum fremur. Ef atvinnurekandi vill segja trúnaðarmanni upp störfum, verður hann að sýna fram á ríkar ástæður fyrir því. Annars má hann bara alls ekki segja manninum upp.
Félagsdómur hefur margsinnis verið látinn dæma um uppsagnir trúnaðarmanna og hafa þar mótast reglur um þær. Kemur þar fram að hugsanlegt er að segja megi trúnaðarmanni upp störfum ef hann verður ber að brotum í starfi, t.d. óheiðarleika, agabrotum, trúnaðarbresti og mikilli óstundvísi. En jafnvel þó svo hafi verið, hafa uppsagnir trúnaðarmanna verið dæmdar ólögmætar ef trúnaðarmaðurinn hefur ekki verið varaður við því að áframhaldandi brotum kunni að vera mætt með uppsögn.
Meginreglan er því sú í dag að því gefnu að ákvæði vinnulöggjafarinnar verði talin standast, en um það verður ekki fjallað hér að afar erfitt er að losna við þann starfsmann sem aðrir starfsmenn gera að trúnaðarmanni sínum.
Þetta er allt rakið hér, vegna þess að nú hafa forystumenn kennara og annarra opinberra starfsmanna krafist þess, að fortakslaust verði bannað að reka trúnaðarmann úr starfi. Og ekki nóg með það, vinnuveitandinn eigi að sjá honum fyrir skrifstofuaðstöðu, tölvu (og hún á sko að vera nettengd!) og aukagreiðslum fyrir trúnaðarmennskustörf utan vinnutíma. Það á semsagt líka að verða óheimilt að losna við þennan starfsmann hvað sem á dynur. Óstundvísi, agabrot, trúnaðarbrot; ekkert skal mega hagga við trúnaðarmanninum.
Þessar kröfur opinberu starfsmannanna eru enn ein áminningin um að nauðsynlegt er að endurskoða vinnulöggjöfina. Ekki til að auka enn réttindi trúnaðarmanna, heldur verður að afnema þessi lögskipuðu sérréttindi. Ekkert er hins vegar því til fyrirstöðu að í frjálsum samningum sé samið um að ákveðinn fjöldi starfsmanna hafi slík réttindi. Trúnaðarmennskan er eins og önnur réttindi verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda; um hana á að semja í frjálsum samningum en ekki með landslögum.