Öfug sönnunarbyrði er ein af ástæðum þess að erfitt er að hætta niðurgreiðslum hins opinbera, að mati mati Friedrichs Merz fjármálasérfræðings Kristilegra demókrata í Þýskalandi, samkvæmt viðtali í nýjasta tölublaði Wirtschaftswoche. Hann segir að þeir sem fá niðurgreiðslurnar séu fljótir að verða háðir þeim og eftir það verði stjórnmálamenn að sanna að rökin fyrir niðurgreiðslunum eigi ekki lengur við. Eiginlega ætti þessu að vera einmitt öfugt farið, segir Merz, viðtakendurnir ættu að þurfa að sýna fram á hvers vegna og hversu lengi þeir þurfa niðurgreiðslurnar.
Hann bendir einnig á að skattaívilnanir eru óbeinar niðurgreiðslur og vill að þær séu meðhöndlaðar sem slíkar. Væru þessar viðmiðanir hafðar til hliðsjónar hér á landi þyrftu bændur með reglubundnum hætti að færa sönnur á að réttmætt sé að skattgreiðendur séu látnir afhenda þeim hluta eigna sinna. Sjómenn yrðu að rökstyðja sjómannaafsláttinn og útskýra fyrir öðrum landsmönnum hvers vegna þeim beri niðurgreiðslur frá skattgreiðendum. Foreldrar þyrftu sömuleiðis að sannfæra aðra skattgreiðendur um sanngirni þess að þeir fái niðurgreiðslur fyrir barneignir og svo mætti lengi telja.
Ef til vill væru niðurgreiðslurnar ekki eins stór hluti fjárlaga og þær eru í dag ef þeir sem þær fá yrðu með reglubundnum hætti að sýna fram á réttmæti þeirra. Sönnunarbyrðin væri þá að minnsta kosti orðin rétt, en ekki öfug eins og nú er.