Þriðjudagur 7. september 1999

250. tbl. 3. árg.

150 milljónir króna. Það eru ekki nema tæpar 600 krónur á hvern landsmann. Þetta er upphæðin sem Guðni Ágústsson ætlar að nota til að kaupa fylgi við Framsóknarflokkinn í Skagafirði. Hugmynd Guðna er að gera Skagafjörð að miðstöð íslenska hestsins og kosta til þess 30 milljónum króna af fé skattgreiðenda árlega í fimm ár. Landbúnaðarráðherra kynnti þetta á töðugjaldahátíð skagfirskra hestamanna þann 28. ágúst. Það er eftir öðru í þessu máli að þiggjendurnir fá fyrst af því fréttir en greiðendurnir seinna. Greiðendurnir munu vafalaust láta hirða þessa hundraðkalla af sér eins og svo marga aðra enda svarar það vart kostnaði að röfla yfir þessu máli sérstaklega. En frelsið glatast sjaldan allt í einu.

Í DV í gær var rætt við Anders Hansen hrossaræktanda vegna málsins og segir hann að þetta sé gróf mismunun, hrossaræktendur, hestaleigur og tamningastöðvar séu lítil fyrirtæki sem eru dreifð um allt land og fráleitt að taka einn landshluta fram yfir aðra með þessum hætti. „Menn geta ímyndað sér hvað gerðist, svo dæmi sé tekið af ferðaþjónustunni, ef allt í einu yrði gefin út opinber tilkynning um að Miðstöð ferðamála á Íslandi skyldi framvegis vera á Fljótsdalshéraði og ríkisvaldið ætlaði að ausa peningum í þann landshluta einan. Hvað ætli hótelin, ferðaskrifstofurnar og ferðaþjónustufyrirtækin í öðrum landshlutum segðu þá?“, var haft eftir Anders í DV.

Í gærmorgun bárust af því fréttirÁrni Sigfússon formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda hefði óskað eftir fundi með fjármálaráðherra til að leggja fram kröfur sínar um lækkun bensínverðs. Skömmu síðar var sagt frá því að maður nokkur hefði verið skotinn þegar hann nálgaðist egypska ráðamenn með bænaskjal í hendi. Í næsta fréttatíma var tekið fram að FÍB væri aðeins að biðja um 2 krónur.