Eins og Vef-Þjóðviljinn minntist á fyrir nokkru er sérstakur tekjuskattur, svonefndur hátekjuskattur sem upphaflega var tímabundinn 5% skattur, nú orðinn 7% ótímabundinn skattur. Frá því skatturinn var lagður á hafa laun hækkað mun meira en tekjumarkið sem skatturinn er miðaður við. Fólk neðar í tekjustiganum sem borgaði skattinn ekki þegar hann var lagður á í upphafi gerir það nú. Í Viðskiptablaðinu í vikunni er sagt frá því að þeim sem borga hátekjuskattinn fjölgaði úr 9.320 í 9.500 milli áranna 1997 og 1998 þrátt fyrir að tekjumörkin sem menn byrja að greiða skattinn við hafi verið hækkuð um áramótin 1997/98. Tekjur ríkissjóðs af þessum skatti hækkuðu einnig verulega eða um 68% milli ára, úr 561 milljón króna í 941 milljón. Rétt eins og tekjur ríkissjóðs af almenna tekjuskattinum. Ef allt væri eðlilegt hjá ríkissjóði og engin þensla þar á bæ væri auðvitað hægt að lækka skatthlutföll vegna þessara auknu tekna.
Þegar álagningarseðlar voru sendir út um mánaðamótin kom í ljós að þeir sem til dæmis áttu að greiða af lánum sínum hjá Íbúðalánasjóði á gjalddaga 30. júní en drógu það fram til 1. júlí voru látnir greiða aftur af láninu með því að lækka vaxtabætur þeirra. Íbúðalánasjóður þurfti því að endurgreiða 118 milljónir króna til 3.400 einstaklinga sem hann taldi að væru enn í vanskilum við ákvöðrun álagningar en voru það ekki. Þessi endurgreiðsla mun hafa kostað Íbúðalánasjóð 500 þúsund krónur en hann munar ekki um það eftir að hafa flutt með sitt hafurtask norður á Sauðárkrók í kjördæmi félagsmálaráðherrans og komið starfseminni þar á legg frá grunni.