Föstudagur 6. ágúst 1999

218. tbl. 3. árg.

Í leiðara Dags í gær segir ritstjórinn frá því að hann hafi fregnað að nokkrir bölsýnsimenn hafi komið saman á málfundi fyrir nokkru og skeggrætt um allt það versta í heimi hér að þeirra mati. Ekki síst að mannkynið hafi gert harða atlögu að lífríki jaðar og staðið fyrir „stórfelldri útrýmingu tegundanna“.
Nú er það áætlað að þótt maðurinn hafi lagt allnokkrar tegundir að velli hafi náttúran sjálf útrýmt 99,9% þeirra lífvera sem uppi hafa verið á jörðinni. Þetta afrekaði náttúran ein og sér án hjálpar mannsins. Þetta var með öðrum orðum náttúruleg útrýming. Þegar slík náttúruleg útrýming af völdum eldgoss, flóða, fellibylgja, kuldakasts, skordýraplágu eða annarra náttúrufyrirbrigða hefur átt sér stað stendur væntanlega eftir ósnortið víðerni. Ef að maðurinn hreyfir við þessu ósnortna víðerni telst það umhverfisslys, ef ekki óbætanlegt umhverfislys, barnabörn okkar hafa verið svikin og gott ef við höfum ekki fyrirgert rétti okkar til að vera hér á jörðinni, ef marka má suma umhverfisverndarsinna. Það er þó hætt við að umhverifsverndarsinni ætti erfitt með að ákveða sig ef hraun væri að færa síðustu hrísluna af einhverri trjátegund í kaf. Ætti hann að bjarga tegundinni undan flóðinu og snerta á víðerninu? Og hvað ef síðasta eintakið af grasbít væri í þann mund að gæða sér á síðasta stráinu af ákveðinni tegund?

hoodwink.jpg (6253 bytes)
hoodwink.jpg (6253 bytes)

Aukin velmegun mannsins virðist lítilfjörleg í huga þeirra bölsýnismanna sem kenna sig við umhverfisvernd. Julian Simon sem lést á síðasti ári var óþreytandi við að afhjúpa rangfærslur og bölmóð umhverfisverndarsinna. Þetta gerði hann í bókum eins og The Ultimate Resource, The State of Humanity og The Economics of Population. Í síðustu bók sinni, Hoodwinking the Nation, sem kom út í vor ræðst Simon gegn sífelldum kröfum um aukin ríkisumsvif vegna umhverfismála. Hann andmælir því að heimurinn sé á heljarþröm, að náttúruauðlindir séu að ganga til þurrðar, mengun fari hraðvaxandi, að ræktarland fari minnkandi og fólksfjölgun leiði til hörmungar. Hann veltir því einnig fyrir sér hvers vegna svo margir líffræðingar séu svartsýnir á framtíðina, hvers vegna neikvæðar fréttir af ástandi mála séu svo vinsælar og hvers vegna fólk líti almennt jákvæðari augum á fortíðina en framtíðina. Hoodwinking the Nation fæst fyrir um 1.500 krónur hjá Laissez-Faire Books.

Jóhanna Sigurðardóttir segir aðspurð í Degi í gær að henni þyki eðlilegt að lækka skatta á bensín vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði. Í stefnuskrá fylkingarinnar fyrir síðustu þingkosningar sem haldnar voru fyrir þremur mánuðum var lagt til að landsmenn yrðu gladdir með „almennum koldíoxíðskatti“.