Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað verulega undanfarna mánuði vegna framleiðslutakmarkana sem helstu olíuframleiðsluríki heims hafa komið sér saman um. Þau hafa haft slíkt samráð áður en yfirleitt brestur það fyrr en varir. Hækkunarinnar gætir mjög hér á landi þar sem stór hluti skatta á bensín eru hlutfallsskattar sem magna hækkunina upp. Ríkið hirðir alls milli 70 og 80% af bensínverðinu, þannig að þegar verð fyrir skatta hækkar um 1 krónu bætir ríkið við 1,50 krónum þannig að heildarhækkunin verður 2,50 krónur. Ríkissjóður hagnast því mjög á hækkuninni á heimsmarkaðsverði á olíu. Hagsmunir hans og annarra landsmanna fara því ekki saman í þessu máli fremur en mörgum öðrum.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur lagt til að ríkið lækki skatta á eldsneyti enda sé ljóst að ríkið fær mun meiri tekjur af eldsneyti en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Tillagan hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn hjá ráðamönnum og þeir hafa talið hana valda aukinni þenslu. Það getur þó vart verið þar sem FÍB er aðeins að leggja til að bensínverð hækki ekki vegna skattheimtu. Bensínverð mun engu að síður hækka. Og er það víst að ríkissjóður muni ekki nota þessa auknu fjármuni (sem að hluta eru sérmerktir vegagerð) til þensluhvetjandi verkefna? Vísitala neysluverðs mun svo auðvitað hækka hressilega vegna þessara hækkana en það hefur neikvæð áhrif á lánskjör fyrirtækja og einstaklinga.
Líklega væri eðlilegra að skattur á eldsneyti væri ákveðin krónutala í stað hlutfallsskatta. Þ.e.a.s. ef menn vilja viðhalda þessum ranglátu ofursköttum á bensín. Ríkið mundi eftir sem áður fá sínar tekjur eins og ráð er fyrir gert í fjárlögum, því bensínnotkun breytist lítið þótt verð hækki eða lækki. Þannig hefur ríkið sínar tekjur á hreinu á hverju sem gengur á olíumörkuðum og hækkanir á heimsmarkaði magnast ekki upp og verða mun meiri hér.
Al Gore, væntanlegur forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum á næsta ári, hefur árum saman rekið mikinn áróður fyrir öfgafullum sjónarmiðum í umhverfismálum. Síðastliðinn mánudag hélt hann uppteknum hætti þegar hann talaði við hóp barna sem eru á sumarnámskeiði í Washington. Hélt hann því fram að hiti færi hækkandi á jörðunni og því verði að grípa til hertra aðgerða. Vísaði hann sérstaklega til hita sem verið hafa í Bandaríkjunum að undanförnu.
Patrick J. Michaels sem ritar um umhverfismál fyrir Cato stofnunina í Bandaríkjunum kemst að töluvert ólíkri niðurstöðu í athyglisverðum pistli í fyrradag. Hann bendir í fyrsta lagi á að sumarhiti hafi ekki farið hækkandi í Bandaríkjunum á þessari öld. Í annan stað minnir hann á að hitastig jarðarinnar hefur samkvæmt veðurbelgjum og gervihnöttum farið lækkandi síðustu 20 árin, en þessar mælingar eru þær nákvæmustu sem völ er á. Áróðursmenn fyrir öfgasjónarmiðum í umhverfisvernd hafa ítrekað haldið öðru fram.
Í þriðja lagi bendir Michaels á að búnaður til loftkælingar, sem notar mikla raforku, spari fjölda mannslífa ár hvert. Aldraðir fara illa út úr miklum sumarhitum og þeir hika margir við að nota loftkælingu því orkan er dýr. Dauðsföllum aldraðra vegna sumarhita hefur fækkað á öldinni vegna aukinnar notkunar loftkælingar. Verði Al Gore og öðrum stuðningsmönnum Kyoto-samkomulagsins að ósk sinni mun orkan verða dýrari og færri nota loftkælingu, með þeim afleiðingum að fleiri munu láta lífið vegna sumarhita.