Helgarsprokið 1. ágúst 1999

213. tbl. 3. árg.

Eiður Guðnason sendiherra rekur það í rabbi í Lesbók Morgunblaðsins hvaða málstað samtök sem nefnast People for the Ethical Treatment of Animals (PETA) verja. Vilja samtökin að fólk hætti að borða dýrakjöt en snúi sér að plöntum sem samtökin vilja meina að „hafi ekki taugakerfi“ og finni ekki til þótt þær séu saxaðar niður í grænmetisborgara. Og jafnvel þótt plöntunar finni til réttlæti það ekki að við drepum dýr í þeim tilgangi að eta þau! Er grein Eiðs ágæt lesning um hvernig öfgafull umhverfisverndarsjónamið geta hlaupið með fólk í gönur.

Í Washington Times var nýlega sagt frá því að John Taylor 74 ára verktaki á eftirlaunum hefði ákveðið að byggja hús á einni hæð á landareign sinni í Washington DC þar sem kona hans er í hjólastól og á óhægt um vik í þriggja hæða húsi þeirra. En svo vill til að örn hefur hreiður á nálægu landi og opinber stofnun sem nefnist US Fish & Wildlife Service hefur ákveðið að ekkert verði byggt í 250 metra radíus frá hreiðrinu þótt þar séu tíu hús fyrir. Stofnunin er þó tilbúin til að gefa Taylor undaþágu ef hann leggur fram 240 þúsund krónur í verkefni sem hefur það að markmiði að auka fiskgengd í Potomac ána svo ernir hafi nægt æti. Verkefnið hefur þó ekkert með örninn í nágrenni við Taylor hjónin að gera. Þau telja það hins vegar fráleitt að þurfa að múta stjórnvöldum til að fá að byggja á eigin landi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að eignir manna hér á landi eru gerðar upptækar með skattheimtu. Tekjuskattur gerir tekjur þínar upptækar að stórum hluta, neysluskattar taka annan hluta af tekjum þínum (mjög stóran ef þú reykir, drekkur áfengi og ekur langa leið í vinnu). Eignaskattar höggva svo skarð í það sem eftir stendur. Þessi eignaupptaka er gerð í nafni „samfélagslegra markmiða“. Þau eru misjafnlega þörf eins og við þekkjum og stjórnast fyrst og fremst af því hvernig starfsmenn hins opinbera sjá hag sínum best borgið, hvaða þrýstihópar eru best skipulagðir og hverjir eru duglegastir í að sækja sér fé og fyrirgreiðslu frá hinu opinbera. Á næstu árum má gera ráð fyrir að ný tegund eignaupptöku munu ryðja sér til rúms hér eins og hún hefur gert erlendis. Við fundum smjörþefinn af þessu þegar hvalveiðar voru bannaðar hér fyrir nokkrum árum. Þá voru atvinnuréttindi margra Íslendinga gerð upptæk í nafni „umhverfissjónarmiða“. Ef til vill hefur almenn andúð á þessum atburði seinkað því að eignaupptaka í nafni umhverfisverndar verði almennt viðurkennd hér. En þess er sennilega skammt að bíða.

Landeigendur mega búast við því að ríkið takmarki not þeirra á eignum sínum með ýmsum boðum og bönnum í nafni umhverfisverndar. Það versta við takmarkanir af þessu tagi er að það er erfitt að meta þær til fjár. Þegar byggingarréttur er tekinn af landeiganda er erfitt að meta tjón hans vegna hugsanlegra viðskipta með byggingarréttinn. Visslega er stundum eftirsjá í fallegu landi undir byggingar en væntanlega hafa einhverjir not fyrir byggingarnar og ánægju af þeim.

Ýmis félög náttúruunnenda, sportveiði- og útivistarfólks hafa á undanförnum árum keypt stórar landareignir víða um heim í þeim tilgangi að vernda svæðin og það plöntu- og dýralíf sem þar er að finna. (Það er auðvitað hagur sportveiðimanna að vernda dýrastofna og tryggja skynsamlega nýtingu þeirra.) Það er til dæmis orðið algengt í Bandaríkjunum að safna fé meðal fyrirtækja og almennings til að kaupa upp land í þeim tilgangi að vernda það. Þetta er í raun það sama og fuglaverndar- og skógræktarfélög hafa verið að gera hér á landi. Þessi aðferð er eðlilegri en að stjórnmálamenn geri eignir fólks upptækar. Vesturlandabúar eru ríkir vegna þess að þeim hefur með frjálsum viðskiptum tekist að nýta auðlindir sínar skynsamlega. Það er engin ástæða til að ætla annað en að frjáls viðskipti muni tryggja nægt framboð á því sem svo margir meta svo mikils í dag og nefnt er ósnortin náttúra.