Borgaryfirvöld hafa nú ákveðið að koma í veg fyrir nektardans á Club Clinton í Fischersundi og verður því ekkert af heimsókn Hillary þangað í október. Stærstur hluti ástæðu þess að borgaryfirvöld beita sér svo mjög gegn þessu fyrirtæki er að þeim þykir starfsemi þess ekki nógu menningarleg. Þetta er athyglisverð stefnubreyting hjá vinstri mönnum, því þegar þeir voru við stjórnvölinn í Reykjavík fyrir tæpum tuttugu árum stóðu þeir sjálfir fyrir nektardansi. Þá fengu þeir hingað til lands japanskan mann, Min Tanka að nafni, sem skók sig nakinn fyrir allra augum á miðju Lækjartorgi. Þá var dansað fyrir augum barna og fullorðinna hvort sem þeir höfðu beðið um slíkt eða ekki, en nú þurfa menn að vera orðnir tvítugir og fara inn á sérstaka dansstaði til að sjá herlegheitin. Þá var dansað á vegum opinberra aðila og þá taldist dansinn list. Nú er dansað á vegum einkaaðila og þá þykir borginni þetta lítil list. Líklega er eina leiðin fyrir unnendur nektardans að fá borgina til að setja upp dansstaði á eigin vegum. Hún hlýtur enda að geta farið út í rekstur nektardansstaða fyrst það vefst ekki fyrir henni að hefja rekstur fjarskiptafyrirtækja.
Byltingarstjórn jafnaðarmanna á meginlandi Kína hefur þessa dagana í hótunum við Kínverja í hinu lýðræðislega ríki Tævan. Á eyjunni Tævan hefur verið markaðsskipulag en á meginlandi Kína hefur lengst af verið alræðisfyrirkomulag að hætti kommúnista þó slaknað hafi á klónni í efnahagsmálum á síðustu árum. Enn eru mannréttindi þó lítið virt á meginlandinu líkt og í öðrum ríkjum af þessu tagi og stjórnarandstæðingum haldið í fangelsum. Eins og við er að búast eru lífskjör mun betri á Tævan en á meginlandinu og hafa Tævanir reynt að losa um tengslin við meginland Kína, nú síðast með því að forseti Tævan sagðist vilja að samskipti Tævan og meginlands Kína yrðu eins og samskipti tveggja ríkja. Þetta þola stjórnarherrar í Beijing ekki og hóta að senda herinn yfir sundið og hertaka Tævan.
Það er eitt einkenni ólýðræðislegra og of valdamikilla ríkisstjórna að þær kjósa oft valdbeitingu til að leysa úr deilumálum. Oft á tíðum getur hreinlega verið hagstætt fyrir slíkar ríkisstjórnir að þjappa landsmönnum að baki sér með því að ala á þjóðerniskennd og útlendingahatri. Ekki er til neitt einfalt ráð til að breyta ríkjum á borð við Alþýðulýðveldið Kína, en þó verður að telja líklegt að mikil viðskipti við almenning í landinu og þar með bættur efnahagur og styrkur hans sé það eina sem dugar til að breyta ástandinu og koma stjórn kommúnista frá völdum. Á sama tíma verða stjórnvöld á Vesturlöndum hins vegar að hafa í huga að Beijing-stjórnin er ógnarstjórn og full ástæða til að umgangast hana sem slíka.