T.J. Rodgers framkvæmdastjóri Cypress Semiconductor Corporation sem staðsett er í Silicon Valley í Bandaríkjunum bar vitni fyrir fjárlaganefnd bandarísku fulltrúadeildarinnar 30. júní síðastliðinn. Til umræðu voru styrkir bandaríska ríkisins til fyrirtækja þar í landi, sérstaklega í hátækniiðnaðinum í Silicon Valley. Nokkrir aðrir báru vitni fyrir nefndinni af þessu tilefni og komust þeir að svipaðri niðurstöðu og Rodgers, en um það má lesa á heimsíðu Bandaríkjaþings. Það er skemmst frá því að segja að álit Rogers á slíkum styrkjum er að þeir geri meira ógagn en gagn. Sama sinnis eru að minnsta kosti 78 framkvæmdastjórar hátæknifyrirtækja í Kísildalnum, en undirskriftum þeirra safnaði Rodgers á einum degi áður en hann bar vitni fyrir nefndinni. Var þessi undirskriftarsöfnun svar hans við gagnrýni stjórnmálamanna sem héldu því fram að hann væri úr tengslum við vilja meirihluta þeirra sem starfa í þessum geira, en Rodgers er raunar varaformaður samtaka þeirra fyrirtækja sem starfa á þessu sviði í Silicon Valley og er sem slíkur fulltrúi langflestra fyrirtækja í þessum geira sem starfa í Bandaríkjunum.
En hverjar skyldu svo vera ástæður þess að fyrirtæki í hátækniiðnaði í Bandaríkjunum vilja ekki ríkisstyrki? Er ekki óskastaða hvers framkvæmdastjóra að fá ókeypis fjármagn inn í fyrirtæki sitt? Um þetta eins og annað gildir að engin gæði eru ókeypis og þetta fjármagn er dýru verði keypt. Rodgers telur að ástæður þess að fyrirtækjum í Silicon Valley hefur gengið vel séu þær að þau hafi ekki viljað raða sér í kringum kjötkatlana í Washington. Það tekur mikinn tíma og kraft frá stjórnendum fyrirtækja að eltast við styrki frá hinu opinbera og á meðan stjórnendur fyrirtækja eru að ræða við stjórnmálamenn um hugsanlega styrki eru þeir ekki að ræða við verkfræðingana eða tölvufræðingana í fyrirtækjum sínum og velta fyrir sér hvaða hugmynd sé þess virði að þróa hana áfram. Ýmsir stjórnmálamenn eru hins vegar áhugasamir um að styrkjum til fyrirtækja sé haldið áfram, því þar með aukast völd og áhrif þessara stjórnmálamanna og þau fyrirtæki sem vilja sækja fé í opinbera sjóði greiða oft fyrir það með styrkjum í kosningasjóði.
Rodgers bendir á að með því að taka fé af fólki og fyrirtækjum með sköttum til að endurgreiða útvöldum fyrirtækjum sé verið að sóa fjármunum. Almenningur fjárfestir sjálfur í hlutabréfum, bæði beint og í gegnum sjóði, og mun líklegra er að þeir peningar fari í arðbær fyrirtæki en peningar sem hið opinbera útdeilir eftir pólitískum leiðum. Augljóst er að skattur sem almenningur greiðir fer ekki í hlutabréfakaup þessa sama almennings. Rodgers benti t.d. á að þegar skattar voru hækkaði í Bandaríkjunum árið 1993 hafi hann orðið að selja hlutabréf í hátæknifyrirtækjum til að greiða hærri skatta og þar með minnkaði fjármagn í greininni.
Meint ranglát samkeppni erlendis frá er að sögn Rodgers oft notuð sem átylla fyrir opinberum stuðningi við atvinnulífið, hvort sem þar er um að ræða beinan fjárstuðning, tolla, kvóta, reglur um samkeppni eða annað. Staðreyndin er að hans sögn hins vegar sú að þessi röksemd á ekki rétt á sér enda hafi stuðningur við fyrirtæki erlendis oft verið ofmetinn og ef erlend fyrirtæki hafi náð sterkri stöðu á markaðnum hafi það verið vegna þess að þau hafi staðið sig vel og verið samkeppnishæf. Stuðningur hins opinbera hafi hins vegar ekki valdið þessu.
Hér á landi njóta fyrirtæki ýmiss konar stuðnings frá hinu opinbera. Mestur stuðningur er í formi tolla, tollkvóta, kvóta í landbúnaði og annan stuðnings við hann, lána frá Byggðastofnun og skattaafsláttar, t.d. sjómannaafsláttar og afsláttar við hlutabréfakaup. En stuðningurinn er einnig beinn í formi styrkja og má þar nefna sem dæmi að á síðasta kjörtímabili fékk iðnaðarráðherra því framgengt að hann mætti úthluta 80 milljónum króna til fyrirtækja sem hann hefði velþóknun á. Þessi stuðningur allur kostar nokkra milljarða króna og skekkir þar með verulega þær aðstæður sem fyrirtæki búa við. Of miklir fjármunir fara í sumar atvinnugreinar og of litlir í aðrar. Veikar atvinnugreinar ná ekki að rétta úr kútnum og sterkar atvinnugreinar eiga erfiðara með að blómstra.
Nýjasta krafan um opinbera styrki til atvinnuuppbyggingar hefur komið fram í kjölfarið á erfiðleikum Rauða hersins svokallaða á Vestfjörðum. Sumir virðast halda að þar hljóti lausnin að felast í því að ríkið dæli fé enn eina ferðina í fyrirtæki sem ekki standa sig hjálparlaust. Það sem þarf hins vegar í því tilviki eins og öðrum er að fyrirtækjum sem ekki bera sig sé leyft að fara í þrot og önnur sterk fái svigrúm til að dafna í staðinn. Sama lögmálið er í gildi á Vestfjörðum á Íslandi og í Kísildal í Bandaríkjunum og í fiskvinnslu jafnt og í tölvukubbaframleiðslu að besta tryggingin fyrir sterku atvinnulífi er að það sé laust við afskipti hins opinbera.