Laugardagur 3. júlí 1999

184. tbl. 3. árg.

Í fyrradag voru tvö ár frá því Bretland afhenti Alþýðulýðveldinu Kína yfirráðarétt yfir Hong Kong. Sérstök stjórn var sett á laggirnar í Hong Kong en í samningi kommúnistastjórnarinnar í Beijing við fyrrum yfirvöld smáríkisins var meðal annars kveðið á um að næstu fimmtíu árin skuli efnahagsumhverfið í Hong Kong fá að halda sér og að réttarríkið fengi að njóta sín að breskum hætti. Talað var um að í samningnum fælist „eitt ríki en tvö kerfi“. Nú eru nokkrar efasemdir uppi um að þetta muni standa og eru mótmæli vegna þessa tíð á götum úti í Hong Kong.

Nýjasta dæmið um að ekki er allt með felldu er ákvörðun yfirvalda í Beijing að virða að vettugi úrskurð hæstaréttar í Hong Kong um það hver hafi rétt til að búa þar. Leiðtogi Hong Kong, Tung Chee Hwa, var hlynntur þessari íhlutun Beijingstjórnar. Ýmis dæmi eru einnig nefnd um pólitíska spillingu sem tengjast á Tung og hann hefur lýst efasemdum um frjálst markaðskerfi í Hong Kong. Hefur það bæði komið fram í orðum og verki, eins og í afskiptum yfirvalda af hlutabréfamarkaðnum.

Ekki er gott að spá fyrir um hver þróunin verður, þ.e. hvort markaðskerfið fær áfram að njóta sín í skjóli laga og réttar, eða hvort stjórnlyndi og spilling munu festa rætur í Hong Kong. Hitt er víst að þessi óvissa skaðar Hong Kong og íbúa þess. Einnig er ljóst að velmegun Hong Kong má rekja til þess að þar hafa gilt aðrar og betri reglur en í nágrannaríkjunum. Árið 1844 spáði einn yfirmanna Breta á nýlendunni, Robert Montgomery Martin, því, að „ekki virtust minnstu líkur á að Hong Kong gæti undir nokkrum kringumstæðum orðið miðstöð verslunar“. Hann athugaði ekki að réttar reglur og frelsi til viðskipta vega miklu þyngra en landfræðileg lega.