Mánudagur 5. júlí 1999

186. tbl. 3. árg.

Ýmsir hafa viljað kenna frjálsa aflamarkskerfinu um vanda fiskvinnslunnar á Vestfjörðum. Í Morgunblaðinu um helgina var hins vegar rætt við Svan Guðmundsson, framkvæmdastjóra Básafells hf. á Ísafirði. Þar segir Svanur að andstaða Vestfirðinga við stjórnunarkerfi fiskveiða hafa skaðað fyrirtækin fyrir vestan. „Það er ekki alltaf hægt að finna skýringarnar í kvótakerfinu. Menn verða einfaldlega að sníða sér stakk eftir vexti. Vestfirðingar hafa ákveðnar veiðiheimildir og verða að vinna úr því sem þeir hafa. Heimildirnar hafa ekki minnkað á Vestfjörðum meira en gerst hefur annars staðar. Þær aðgerðir sem fyrirtækin eru í núna eru einmitt til þess ætlaðar að styrkja fyrirtækin og byggja upp rekstur til framtíðar á þeim aflaheimildum sem við höfum úr að spila. Það væri því glapræði að breyta forsendunum nú þegar fyrirtækin eru sem veikust fyrir. Ef fiskveiðistjórnunarkerfinu yrði breytt í dag myndi það endanlega gera út af við sum fyrirtæki á Vestfjörðum“, sagði Svanur.

Kosningar á Netinu eða sendingar á tölvupósti eru vissulega ekki skoðanakannanir. Þó eru viðbrögð netnotenda umhugsunarverð eftir að Gary Johnson ríkisstjóri í Nýju Mexíkó lýsti þeirri skoðun sinni síðastliðinn miðvikudag að hið svokallaða „war on drugs“ hefði algerlega mistekist og að rétt væri að fara að endurskoða stefnuna varðandi fíkniefni. Yfir 90% þess tölvupósts sem ríkisstjóranum hefur borist eftir þetta hefur verið jákvæður og fólk hefur almennt lýst sig sammála þeim sjónarmiðum hans að „baráttan við fíkniefnin“ hafi gert illt verra.

Ríkisstjórinn telur að eðlilegt sé að hefja umræðu um hvort ekki eigi að breyta lögum varðandi eignarhald á maríúana. Það geti verið rökrétt fyrsta skref í þá átt að aflétta hinu misheppnaða banni að leyfa veikasta efnið. Hann bendir á að varla sé hægt að líta svo á að fólk sem notar þessi veiku efni sé allt þar með glæpamenn. Allir þekki marga sem neyti þessara efna en það fólk sé samt almennt ekki álitið glæpamenn þó það hafi brotið fíkniefnalögin.