Það er víðar en hér á landi sem yfirvöld eru upptekin við að setja einkennileg lög. Í Louisiana hefur verið sett í lög að börnum á barnaheimilum beri skylda til að ávarpa fóstrur og fóstra með titlunum frú og herra. Í Washington hafa (í bjartsýniskasti) verið sett lög sem banna stjórnmálamönnum að segja ósatt í kosningaáróðri. Svo má ekki gleyma að í Suður-Karólínu hefur verslun með þvag úr mannskepnum verið gerð óheimil og munu þau lög sett vegna mikillar spurnar eftir lyfjalausu þvagi. Hvað verður nú um þá sem hafa haft lifibrauð af sölu þessarar vinsælu vöru?
Jón Sveinsson sjóliðsforingi og iðnrekandi hefur að undanförnu ritað nokkrar greinar um æðadúnsframleiðslu og telur hann að hugsunarháttur sumra bænda sé ekki til þess fallinn að styrkja stöðu bænda. Jón rekur æðadúnsvinnslu og hefur hann brýnt bændur til að líta meira til lögmála markaðarins en þeir hafa hingað til gert. Hefur hann ekki legið á þeirri skoðun sinni að hægt væri að gera mun betur í landbúnaði en nú er ef bændur hættu að spyrna við fótum þegar markaðsstarfsemi er annars vegar en nýttu sér þess í stað kosti markaðarins. Bendir hann á að markaðurinn gerir kröfur um gæði og þjónustu og að ekki þýði að streitast á móti vilji menn fá gott verð og halda í viðskiptavininn.
Í grein í Morgunblaðinu í gær segir Jón Sveinsson þetta um frjálsa samkeppni og auðlegð þjóðanna: Bændur hafa horn í síðu frjálsrar samkeppni sem þó hefur skilað þeim ríkjum sem hana aðhyllast mestum framförum og velmegun þegnanna en á hinn bóginn hinum sem hana forðast algerri örbirgð. Að segja samkeppni er góð til síns brúks, en… er líkt og að taka náungann kverkataki og segja um leið: súrefni er gott til síns brúks, en…