Stefán Jón Hafstein ritar dálk í Dag sem ber nafnið Umbúðalaust. Í gær ritar hann um boðskap Anthony Giddens sem kom hingað til lands í síðustu viku og flutti fyrirlestra sem þóttu skilja lítið annað eftir en umbúðirnar. Vef-Þjóðviljinn kættist því mjög er hann sá um hvað umbúðalaus grein Stefáns Jóns átti að fjalla. Er rétt að deila bitastæðasta innihaldinu með lesendum:
Samfylkingin hefði líklega grætt mest á því að heyra hann tala um nýja sýn, endurskipulag ríkis- og grenndarstjórnmála og framtíðarhugsun í hnattrænu samhengi.
Þriðja leiðin tvinnar því saman grundvallarhugsjónum um jöfnuð og samfélag, og kraft markaðarins. Hún krefst réttinda, en kallar á ábyrgð: einstaklinga, fyrirtækja, stjórnmálamanna. Hún blæs á gamlar goðsagnir eins og þær að hvergi megi hagga við velferðarkerfinu. Hægt er að bæta það með gagnkvæmni ábyrgðar og réttinda. Hún blæs líka á að hefðir (menningarlegar félagslegar, stéttbundnar) séu heilagar. Þriðja leiðin hvetur til aðgerða félaga, flokka, stofnana og ríkja til að móta samfélagsþróun, en vera ekki eftirbátur hennar. Hún er því ekki á núllpunkti, heldur í fararbroddi þeirra sem hugsa um heildarhagsmuni.
Þetta innihaldslausa tal vinstri manna rennir stoðum undir orð Vaclav Klaus um að þriðja leiðin liggi til þriðja heimsins.
Í fréttum í gær kom fram að dregið hefur úr útblæstri köfnunarefnisdíoxíðs frá bílaumferð í Reykjavík á undanförnum árum þrátt fyrir að bílum hafi fjölgað. Skýringin á þessu er að nýir bílar menga minna en gamlir bílar. Bruni í nýlegum bílvelum er mun hreinni en í þeim gömlu. Rannsóknir erlendis sýna að mjög stór hluti loftmengunar frá bílaumferð kemur frá tiltölulega litlum hluta bíla sem komnir eru til ára sinna. Ef yfirvöld vilja að áfram dragi úr loftmengun frá bílaumferð liggur beinast við að auðvelda fólki að losa sig við gamla bílinn og kaupa sér nýjan. Besta leiðin til þess að snarlækka hina háu skatta og gjöld sem hið opinbera leggur á bíla.