Föstudagur 14. maí 1999

134. tbl. 3. árg.

Í dag er flaggað um allt land og ekki að ástæðulausu því nú á afmæli sá  sonur þjóðarinnar sem hún stendur í hvað mestri þakkarskuld við. Vefþjóðviljinn ræður því miður ekki yfir flaggstöng og getur því ekki flaggað með viðeigandi hætti en hefur undanfarin ár reynt að sýna afmælisbarninu ræktarsemi með öðrum hætti á þessum degi. Þar sem afmælisbarnið er alþekktur ljóðaunnandi og bókmenntavinur hefur gjarnan orðið að ráði að birta ljóð íslenskra höfuðskálda því til heiðurs og gleði.  Blaðinu þykir rétt að hafa enn þann háttinn á, og í ljósi tignar afmælisbarnsins og þeirrar virðingar sem það hefur unnið til er best við hæfi að leita í smiðju þess skálds sem þjóðinni þykir mest til um. Það er því með stolti og virðingu sem Vefþjóðviljinn sendir afmælisbarni dagsins, dr. Ólafi Ragnari Grímssyni fyrrverandi fjármálaráðherra, sínar innilegustu kveðjur með ljóðlínum Halldórs Laxness, „Kveðið eftir vin minn“:

Þú varst alinn upp á trosi
í lífsins ólgusjó,
síðan varstu lengi á opnum bát
í lífsins ólgusjó,
og þjóraðir brennivín í landlegum
í lífsins ólgusjó.
Með tímanum urðum við fylliraftar
í lífsins ólgusjó.

Þú snýttir þér oft í gardínur
með sigurbros á vör,
og spýttir á bak við mublur
með sigurbros á vör,
en aldrei varstu á þeirra bandi sem máttu sín meir,
með sigurbros á vör,
og það er ég ekki heldur
með sigurbros á vör.

Þú kunnir marga sniðuga sögu
í Edens fínum rann,
og þú vissir alt sem gerðist hjá höfðíngjunum
í Edens fínum rann,
þú vissir um alla bölvaða skandala
í Edens fínum rann,
og ég veit um marga líka
í Edens fínum rann.

thjodhofud.jpg (14914 bytes)
thjodhofud.jpg (14914 bytes)

Þetta mannlíf er undarlegt fyllirí
og einginn fær gert við því,
og sumir eru kallaðir höfðíngjar
og einginn fær gert við því,
en flestir eru ekki annað en venjuleg svín
og einginn fær gert við því,
og svínin eru kóngar í drafinu
og einginn fær gert við því.