Í kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar undanfarnar vikur hefur sundruð Fylking vinstri manna eytt tugum milljóna króna í auglýsingar og aðra kynningu. Er engu líkara en að góðærið hafi skilað sér í kosningasjóði framboðsins. Af fyrri afrekum þeirra aðila sem standa að Fylkingunni er þó öllu líklegra að auglýst sé út á krít. Skemmst er að minnast þess að Alþýðubandalagið veðsetti hugsanleg framtíðarfjárframlög ríkisins til flokksins vegna skulda sem það stofnaði til við útgáfu Þjóðviljans. Fylkingin er hins vegar ekki flokkur heldur kosningabandalag. Engu að síður er safnað fé í hennar nafni vegna kosninganna. Það gera flokkarnir sem að Fylkingunni standa einnig. En þrátt fyrir þessa kostnaðarsömu auglýsingaherferð er fylgið á undanhaldi. Á sama tíma bætir framboð Vinstri grænna við sig fylgi þótt það framboð auglýsi lítið.
Eins og Vef-Þjóðviljinn hefur rakið að undanförnu er stefna Fylkingarinnar um almennan koltvíoxíðskatt þannig að vonlaust er að skilja hana á annan veg en að bensínverð muni hækka. Framan af kosningabaráttunni mátti einnig skilja frambjóðendur Fylkingarinnar þannig. Heimir Pétursson frambjóðandi Fylkingarinnar benti mönnum á að taka bara strætó. Margrét Frímannsdóttir var innt eftir þessu á Bylgjunni í gær og fullyrti þar að almenni koltvíoxíðskatturinn yrði hvorki lagður á samgöngur né fiskiskip. Það þýðir að almenni skatturinn verður ekki lagður á 65% skattstofnsins! Þessi málflutningur Fylkingarmanna er dæmigerður fyrir þann auglýsingabrag sem er á þeim hugsjónum sem þeir tefla fram. Almennur koltvíoxíðskattur hljómar sjálfsagt vel í fyrstu og því hefur hann verið settur í stefnuskrána. En þegar upp kemst að hann leggst einkum á bíleigendur er reynt að draga í land með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum að stefnan verður óskýr og ótrúverðug. Á sama tíma viðurkenna Vinstri grænir það einfaldlega, bæði í stefnuskrá og aðspurðir, að þeir vilja hækka bensínverðið með mengunarsköttum.
Í fyrrnefndum útvarpsþætti á Bylgjunni lenti Margrét einnig í vandræðum með að útskýra fjölþrepa tekjuskattinn sem Fylkingin hefur boðað. Þráspurð um hvaða tekjur menn mættu hafa án þess að tekjuskatturinn hækkaði frá því sem nú er sagði hún að það væri tæknilegt úrlausnarefni og sennilega yrði um 5 til 7 þrep að ræða! Þetta er vafalaust ófullnægjandi svar fyrir flesta skattgreiðendur. Þeir vilja fá að vita hvort skatturinn hækkar eða lækka og stendur nákvæmlega á sama um þau tæknilegu úrlausnarefni sem Fylkingin hefur ekki hugsað til enda.