Föstudagur 7. maí 1999

127. tbl. 3. árg.

Á morgun verður kosið til Alþingis í fyrsta sinn frá því Vef-Þjóðviljinn hóf daglega útgáfu sína.  Eins og lesendum VÞ er kunnugt tekur blaðið afstöðu til mála en ekki flokka eða einstaklinga. Vef-Þjóðviljinn er óháður stjórnmálaflokkunum og gagnrýnir þá alla á sömu forsendum. Þetta kunna lesendur VÞ að meta ef marka má viðbrögð þeirra. Hjá því fer hins vegar ekki að einstaklingar skipa sér að einhverju leyti í flokka eftir málum. Því þarf ekki að koma á óvart að sumir flokkar og einstaklingar innan þeirra verði fyrir meiri gagnrýni á þessum síðum en aðrir.

Upp á síðkastið hefur Vef-Þjóðviljinn reynt að benda nýju framboði gamalla flokksbrota  á ýmislegt sem miður hefur farið þegar stefna þess var ákveðin. Fylkingin lagði því miður af stað til þessara kosninga með loforð um miklar skattahækkanir á einstaklinga. Vef-Þjóðviljinn hefur gert allnokkra grein fyrir því að þessar skattahækkanir lenda á ellilífeyrisþegum, leigjendum, námsmönnum og láglaunafólki eins og öðrum hópum. Stefna Fylkingarinnar er að hækka skatta á allan almenning. „Almennur koltvíoxíðskattur“ sem Fylkingin boðar leggst á eldsneyti ef hann á að vera almennur. Fylkingin boðar að leggja 40% skatt á leigu sem þýðir auðvitað að leiga hækkar í verði og íbúðum í útleigu mun vafalaust fækka. Sparifé almennings verður gert upptækt með 40% skatti á vexti af sparnaði. Enginn veit á hvaða skattgreiðendur verður stigið í fjölþrepaskattkefi Fylkingarinnar, ekki einu sinni frambjóðendur Fylkingarinnar.

Nú eru í þeim flokksbrotum sem standa að Fylkingunni þaulreyndir stjórnmálamenn. Hvers vegna mistókst þeim svo hrapalega í kosningabaráttunni sem raun ber vitni? Vef-Þjóðviljinn gat þess í gær að líklega hefði Fylkingin treyst um of á að auglýsingaskrumið fleytti henni áfram. En fleira getur legið að baki. Stefna Fylkingarinnar í utanríkis- og umhverfisskattamálum hefur verið henni til mikilla trafala í kosningabaráttunni. Einn maður hefur sennilega haft meiri áhrif á mótun stefnu Fylkingarinnar í þessum málaflokkum en nokkur annar. Hann er fyrrverandi umhverfisráðherra og núverandi fulltrúi  Fylkingarinnar í utanríkismálanefnd Alþingis. Hann hefur jafnvel gert Fylkingunni þann óleik að fara af stað með allt aðrar skoðanir á aðild Íslands að ESB en hann hafði sjálfur forgöngu um að móta innan Fylkingarinnar! Til þess fékk hann liðsinni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Vart er þörf á að rifja upp útspil hans um tímasprengjuna í ríkisfjármálunum sem leiddu til fleygra orða Guðmundar Ólafssonar.

En þegar það er hugsað til enda hvaða áhrif það hefði á pólítískan frama Össurar Skarphéðinssonar ef Margréti Frímannsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur hefði tekist að leiða Fylkinguna til sigurs í kosningunum blasir auðvitað við að það hentar honum alls ekki. Eftir að Jóhanna malaði Össur í prófkjörinu í Reykjavík átti hann tæpast von á ráðherrasæti í ríkisstjórn Fylkingarinnar og einhvers annars flokks. Margrét, Jóhanna, Rannveig, Sighvatur og svo einhver kvennalistakona eru augljóslega framar í goggunarröðinni. Með sæmilegu tapi Fylkingarinnar á morgun losnar Össur við allt þetta fólk úr forystu Fylkingarinnar. Því verður kennt um tapið. Hver er þá líklegastur til að taka við?