Menn rýna í ýmislegt í kosningabaráttunni. Merki nýju framboðanna eru til dæmis undir smásjánni. Með fréttatilkynningu sem Frjálslyndi flokkurinn hefur sent fjölmiðlum fylgir tölvutæk útgáfa af merki flokksins. Í fréttatilkynningunni er jafnframt tekið fram að leturgerðin í merkinu sé Comix. Finnst mörgum það við hæfi. Annað sérframboð vinstri manna er líka komið með nýtt merki. Þetta sérframboð er þekktast fyrir að sérhvert mál sem það kynnir hittir framboðið sjálft harðast fyrir. Gagnrýni Jóhönnu Sigurðardóttur á bætur öryrkja og aldraðra varð til þess að í ljós kom að bæturnar lækkuðu meðan hún var félagsmálaráðherra en hafa síðan hækkað. Málefnaplagg sem kynnt var síðasta haust fékk framboðið í hausinn aftur vegna klúðurs í kafla um utanríkismál. Því var ákveðið að sleppa öllu tali um utanríkismál í stefnuplaggi sem birt var á dögunum. Það þótti afar undarlegt því að á sama tíma og fylkingin sagði pass í málefnum NATO stendur NATO einmitt í ströngu.
Nýjasta skotið sem hittir fylkingu sjálfa er tal Össurar Skarphéðinssonar um tifandi tímasprengju. Óþarfi er að rifja upp orð Guðmundar Ólafssonar að því tilefni. En í umræðuþætti á Skjá 1 í gærkvöldi bætti Karl Th. Birgisson starfsmaður fylkingarinnar við þessa sprengjuumræðu og kallaði Össur unguided missile.Það er því vel við hæfi að fylkingin velur sér sem merki búmerang sem snýr sér við.
Í fréttum í gær var rætt við Sigurð Snævarr hagfræðing hjá Þjóðhagsstofnun um samanburðinn á velferðarútgjöldum hérlendis og á hinum Norðurlöndunum. Kom fram í máli Sigurðar að þrjár skýringar væru helstar á þeim muni sem er á útgjöldunum hér og þar. Í fyrsta lagi nefndi hann að atvinnuleysisbætur væru hér innan við eitt prósent af landsframleiðslu, en 4-5 prósent í hinum löndunum. Í annan stað væri íslenska þjóðin yngri en hinar og af þeim sökum sparaðist töluvert. Í þriðja lagi talaði hann um að hér á landi væru barnabætur tekjutengdar, en í hinum löndunum sé það ekki svo. Þess vegna eru útgjöld vegna barnabóta lægri hér á landi enda fá ekki aðrir bætur en þeir sem ríkið telur að þurfi á þeim að halda. Sigurður benti loks á að hér væru lægri skattar en í hinum löndunum og að nauðsynlegt væri að skoða niðurstöðuna nettó, þ.e.bæði það sem fólk greiðir til ríkisins og það sem fólk fær frá ríkinu.
Þetta er einmitt mergur málsins. Það er ekki boðlegt að gera eins og sumir fréttamenn gera sig seka um í þessari umfjöllun og slíta útgjöld ríkisins úr samhengi við skattgreiðslur almennings. Hærri útgjöld og hærri skattar eru tvær hliðar á sama peningnum og engin leið að fjalla um annað nema nefna hitt ætli menn sér að gera málum viðunandi skil. Að tala um að hærri útgjöld þýði að betur sé gert við fjölskyldur er í besta falli misskilningur. Þegar skattar eru jafn háir og raun ber vitni hér á landi er lækkun skatta mun betri mælikvarði á það hversu vel hið opinbera gerir við fjölskyldur en það hversu há útgjöld til velferðarmála eru. Skattalækkun sú sem orðið hefur á yfirstandandi kjörtímabili skilar sér betur til fólks en ef ríkið hefði tekið sömu upphæð og dreift aftur út eftir eigin hentisemi. Í slíku millifærslukerfi tapast jafnan mikið fé og þeim mun meira sem kerfið tekur meira til sín og er umsvifameira.