Mánudagur 19. apríl 1999

109. tbl. 3. árg.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi fjallaði fréttamaðurinn Róbert Marshall um útgjöld til ýmissa velferðarmála hér á landi og erlendis. Fyrr um daginn hafði samstarfsmaður Róberts rætt þetta sama mál á Bylgjunni og fór ekki á milli mála að fréttamönnunum þótti gott þegar ríkið eyðir miklu en slæmt þegar það eyðir litlu. Voru tekin ýmis dæmi um að á Íslandi væri minnu eytt í til þessara mála en á öðrum Norðurlöndum.

Hún er furðuleg þessi tilhneiging sumra fréttamanna í umræðum um þjóðmál að setja samasemmerki á milli mikilla útgjalda og þess að vel sé á málum haldið. Telja þessir fréttamenn t.d. að það sé jákvætt að erlendis fara háar fjárhæðir til velferðarmálsins atvinnuleysisbætur? Er það eitthvað sem önnur lönd ættu að hrósa sér fyrir að þar er minni vinnu að hafa en hérlendis?

Annað dæmi um það hvað þessar tölur geta gefið ranga mynd er í sambandi við tekjutengdar bætur. Hér á landi eru barnabætur t.d. tekjutengdar, en annars staðar er það yfirleitt ekki svo. Þegar bætur eru tekjutengdar þýðir það að útgjöld ríkisins til málaflokksins lækkar þegar laun hækka og velmegun eykst. Er þá af hinu illa ef tekjutengdar bætur lækka með hækkandi kaupgetu launa? Nei, vissulega er það af hinu góða.

Fréttamenn eru hins vegar því miður ekki einir um þann misskilning að best sé að ausa sem mestu úr opinberum fjárhirslum. Um daginn voru tveir framsóknarmenn í útvarpsviðtali og voru spurðir um það hvort búið væri að ákveða hvernig verja ætti þeim milljarði króna sem Framsóknarflokkurinn hyggst bæta við útgjöld vegna fíkniefna. Sá sem fyrri varð til svars svaraði þessari spurningu neitandi, en hinn sá að þetta svar gengi ekki og talaði lengi og mikið, eins og sumra stjórnmálamanna er siður, um allt sem hægt væri að gera við þetta fé. En þó var ljóst að flokkurinn hafði ekkert ákveðið hvernig verja ætti þessu fé, hann hafði bara ákveðið að henda milljarði út um gluggann og vona að hann kæmi einhvers staðar að góðum notum.

Hugsunarháttur eins og sá sem hér að ofan er lýst hefur í gegnum tíðina kostað þjóðina mikla fjármuni og hefur orðið til þess að hún er stórskuldug erlendis. Nýlega tókst þó að snúa dæminu við og ríkið hóf að greiða niður erlendar skuldir sínar. Eigi það að halda áfram er ljóst að menn verða að hætta vanhugsuðum tillögum um útgjöld til einstakra málaflokka. Nauðsynlegt er að menn átti sig á því að hægt er að henda endalausu fé í flesta málaflokka, en ef skattar eiga að halda áfram að lækka og lífskjör að batna gengur ekki að lofa milljarði hér, milljarði þar – milljarði alls staðar.

Í bréfi frá lesanda veltir hann því fyrir sér af hver sé munurinn á því að hossa gömlum kommum eins og Stalín og þjóðernissósíalistum eins og Hitler. Annað þykir yfirleitt ekkert tiltökumál en hitt hneyksli.