Í yfirstandandi kosningabaráttu er tveimur spurningum ósvarað. Önnur spurningin snýst um kosningalögin. Það er, hvort og þá hvaða samband er milli greidds atkvæðis til einhvers flokks og fjölda þingmanna sem viðkomandi flokkur fær. Þess vegna er Þorkell Helgason alltaf stjarna á fjögurra ára fresti þegar hann, í hljóð- og sjónvarpi, útskýrir hversvegna niðurstaða kosninganna er eða verður svona en ekki hinsegin. Samt sem áður er Þorkell aldrei á forsíðu Séð og heyrt undir fyrirsögninni Sjáið flotta sembalinn hans!. Kostnaðurinn við að skilja Þorkel og kosningalögin með öllum sínum uppbótarþingmönnum og jöfnunarsætum er einfaldlega of mikill. Þess vegna er spurningunni ósvarað.
Hin spurningin snýst um skatta. Ekki um hversu mikla eða hvernig, heldur um það, hvað skattar eru. Til dæmis má nefna að Framsóknarflokkurinn virðist lofa að nota eitt þúsund milljónir á næsta kjörtímabili til að hækka skatta á eigendur bifreiða með dýrum hljómflutningstækjum, gamlar konur með handtöskur og eigendur söluturna. Þessi skattur á að heita milljarður til fíkniefnavandans.
Annað dæmi er áætlun fylkingarinnar um byggingu enn stærri og glæsilegri bensínstöðva sem hafa á boðstólnum enn fleiri vörur sem eru æ fjarskyldari rekstri bifreiða. Þessi skattur á að heita koldíoxíðskattur og leiðir til þess að bensínsalar verða að snúa sér að rekstri almenningssalerna, skyndibitastaða, brauðgerða og matvöruverslana. Enginn hefur útskýrt hvers vegna eigi, með sérstökum aðgerðum, að fjölga innbrotum í bíla, söluturna, hvers gamlar konur sem eru einar á ferð með handtöskru sínar eigi að gjalda og og hvers vegana eigi að auka á óhagkvæmni í bensínsölu. Flest lög virðast þó, hvort sem þau eru kosningalög eða fíkniefnalög, vera með einum eða öðrum hætti skattar.