Laugardagur 17. apríl 1999

107. tbl. 3. árg.

Í helgarblaði DV er greint frá því að forráðamenn Framsóknarflokksins hafi nú loksins brugðið á það ráð að senda frambjóðendur flokksins í bráðameðferð hjá tveimur sálfræðingum. Þingmaðurinn síkáti, Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum segir á baksíðu blaðsins að þetta hafi verið „sálfræðimeðferð sem virkar vel“. Og það er vægt til orða tekið því Guðni lýsir áhrifunum á sig með þessum látlausu orðum: „Ég er eins og kjarnorkusprengja á eftir – jákvæður, lífsglaður og hræðist ekkert“ segir Guðni og bætir því við að sér líði „eiginlega eins og Gunnari á Hlíðarenda“. Hér mun Guðni eiga við Gunnar heitinn Hámundarson, fyrrverandi bónda á Hlíðarenda í Fljótshlíðarhreppi í Rangarvallasýslu. Að vísu er óvíst hvort það er framsóknarmönnum sérstakt ánægjuefni að Guðna líði eins og þessum látna manni. Gunnar hefur nefnilega verið látinn í tæplega eitt þúsund ár og mun sjálfsagt vera orðinn að gróðurmold. Nema þá að Guðni eigi við það, að nú, nokkru eftir að ýmsir héldu að pólitísku lífi hans væri því sem næst lokið, sitji hann uppi í framsóknarhaug sínum og kveði þar all torráðnar vísur.

Í Morgunkorni Fjárfestingarbanka atvinnulífsins í gær var fjallað um málflutning Össurar Skarphéðinssonar um viðskiptahalla. Sem kunnugt er líkti Össur viðskiptahallanum við tifandi tímasprengju en þau ummæli urðu Guðmundi Ólafssyni lektor við viðskipta- og hagfræðideild til að benda mönnum á hvar helstu tímasprengjur í pólítík væri að finna.

Í áréttingunni frá FBA segir: „Að gefnu tilefni vill FBA koma eftirfarandi á framfæri. Af blaðagreinum Össurar Skarphéðinssonar, alþingismanns, í Morgunblaðinu og DV í gær mátti skilja að FBA hefði spáð auknum viðskiptahalla á þessu ári.  Það er ekki rétt og er miður að umfjöllun FBA sé slitin úr samhengi. Í þessari umræðu er mikilvægt að gera skýran greinarmun á viðskiptajöfnuðinum í heild og þremur undirliðum hans: vöruskiptajöfnuði, þjónustujöfnuði og jöfnuði þáttatekna, en í greinum Össurar gætti þess misskilnings að vöruskiptajöfnuður og viðskiptajöfnuður væru eitt og hið sama. FBA hefur í sinni umfjöllun bent á að verðþróun sjávarafurða og olíu geti ein og sér leitt til aukins halla af vöruskiptum. Önnur mótverkandi breyting er hins vegar að innflutningur fjárfestingarvara minnkar væntanlega verulega milli ára. Þá er líklegt að þjónustujöfnuður batni milli ára (m.a. vegna aukinna tekna af ferðaþjónustu) og það á einnig við um jöfnuð þáttatekna (sem samanstendur af launum, arði og vaxtagreiðslum til og frá landinu). Heildarniðurstaðan verður því minni halli á viðskiptum við útlönd.

Röksemdir FBA fyrir meiri halla á vöruskiptum en spár opinberra aðila gera ráð fyrir, ganga m.a. út á að opinberar spár kunni að vera bjartsýnar, þar sem verðþróun hefur reynst óhagstæð eins og rakið er hér að ofan. Það mun hins vegar ekki breyta því að FBA telur að viðskiptahallinn í heild muni minnka milli ára, eins og þróun fyrstu mánaða ársins gefur raunar tilefni til þrátt fyrir óhagstæða verðþróun.

Eins og komið hefur fram í mánaðarskýrslum FBA, er mikilvægt að gera greinarmun á viðvarandi viðskiptahalla og tímabundnum. Sá mikli innflutningur fjárfestingarvara, sem er stærsti hluti viðskiptahalla undanfarinna ára, er kominn til vegna fjárfestinga sem að öllum líkindum eru arðbærar, en þær munu skila sér í auknum útflutningi þegar fram í sækir. Hér er því að miklu leyti um tímabundna skekkju að ræða og ekki ástæða til að hafa áhyggjur af tímabundnum hluta viðskiptahallans. Brýnt er þó að auka innlendan sparnað við þessar aðstæður.“