Í dag, 30. mars, eru 50 ár liðin frá því Alþingi samþykkti inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Íslenskir kommúnistar beittu sér hart gegn þessari ákvörðun, enda var hún í andstöðu við vilja móðurflokksins í Sovétríkjunum. Svo hart gengu kommúnistar fram að meðan á þingfundi stóð gerðu þeir aðsúg að Alþingishúsinu í þeim tilgangi að hindra störf þingsins og koma í veg fyrir að Alþingi gæti lokið málinu.
Þessar óeirðir voru fyrirsjáanlegar þannig að lögregla hafði kallað út varalið og forvígismenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks skoruðu á stuðningsmenn sína að koma að þinghúsinu til að varna kommúnistum inngöngu með friðsamlegum hætti. Það tókst, en grjóti var látið rigna yfir þá sem tóku sér stöðu fyrir framan húsið og náði grjóthríðin jafnvel inn í þingsali. Þurfti lögregla að leysa upp hóp óeirðaseggja með táragasi og fylgdu í kjölfarið nokkur átök. Þingið lét hins vegar ekki trufla sig í störfum sínum og tókst að afgreiða málið. Þann 4. apríl 1949 undirritaði Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, svo stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins fyrir Íslands hönd.
Frá þessum tíma hefur aðildin að Atlantshafsbandalaginu og síðar varnarsamstarfið við Bandaríkin verið mikilvægasti hornsteinninn í utanríkisstefnu Íslendinga. Flokkarnir lengst til vinstri, hvort sem þeir hafa kallað sig Sameiningarflokk Alþýðu – Sósíalistaflokkinn, Alþýðubandalagið eða eitthvað annað, hafa að jafnaði barist hart gegn aðildinni og veru varnarliðsins, en ekki haft árangur sem erfiði. Lýðræðisflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur, hafa lengst af stutt Atlantshafsbandalagið og varnarsamstarfið, en innan bæði Framsóknarflokks og Alþýðuflokks hafa stundum heyrst efasemdaraddir. Þannig lá við að vinstri stjórnirnar 1956 til 1958 og 1971 til 1974 segðu upp varnarsamningnum en af því varð ekki.
Það eru því nokkur tíðindi að Alþýðuflokkurinn skuli nú ganga til kosninga í bandalagi við harða andstæðinga Atlantshafsbandalagsins og varnarsamstarfsins og undirgangast stefnuskrá, þar sem ekki er einu orði minnst á þessi mikilvægu mál. Talsmaður hins nýja Þjóðvaka, Margrét Frímannsdóttir, sem hefur margoft lýst andstöðu sinni við núverandi utanríkisstefnu Íslendinga, svarar spurningum um þessa stefnuskrá með því einu að þessi mál verði ekki á dagskrá á næsta kjörtímabili, sem er sérkennilegt í ljósi þess að óhjákvæmilegt er að Íslendingar verði, eins og aðrar aðildarþjóðir, að taka afstöðu til hlutverks bandalagsins á næstu árum. Þessi ummæli talsmannsins eru auðvitað sérstaklega einkennileg í ljósi þess að bandalagið tekur þátt í umfangsmestu hernaðaraðgerðum í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar.
En Margréti Frímanns (afsakið, FríTals) þykir greinilega ekki nóg að hinn nýi Þjóðvaki skili auðu í utanríkismálum að öðru leyti en því að hún fari sjálf og óski eftir áheyrn hjá Castró einræðisherra á Kúbu og ræði við glæpamenn í ríkisstjórn hans um kaup Íslendinga á hunangi og sykri nú þegar rússnesk alþýða hefur loks getað sagt upp sykuráskriftinni hjá Castró. Svo virðist sem formaður Alþýðubandalagsins hafi látið þurrka út upplýsingar af heimasíðu Alþýðubandalagsins um stefnu flokksins í utanríkismálum! Þeir sem fara inn á heimasíðu Alþýðubandalagsins og smella á slóðina Ísland og umheimurinn undir Stefna–stefnuskráin fá einfaldlega skilaboðin Object Not Found! Stefna Alþýðubandalagsins í öðrum málum stendur hins vegar óhögguð.