Miðvikudagur 31. mars 1999

90. tbl. 3. árg.

kottur.jpg (6976 bytes)
kottur.jpg (6976 bytes)

Fyrir umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar liggja nú drög að samþykkt um kattahald í borginni. Verði drögin að samþykkt verða settar ýmsar takmarkanir á kattahald í borginni. Í 6. grein segir þannig frá því að „eigi megi hleypa köttum“ inn á tjald- og hjólahýsasvæði, leikvelli og íþróttavelli svo nokkrir staðir séu nefndir. Það þýðir því ekkert fyrir kettina að biðja um leyfi til þess að valsa um á fyrrgreindum stöðum, verði drögin samþykkt. Það verður hins vegar spennandi að sjá hver ætlar að segja blessuðum dýrunum með veiðihárin á efri vörinni frá þessum nýju reglum en svo heppilega vill til að formaður umhverfisnefndarinnar er Helgi Pétursson. Í drögunum er einnig tekið sérstaklega fram að ekki megi hleypa köttum inn í „fangelsi og aðrar vistarverur handtekinna manna“. Er þetta vafalaust sett inn með hagsmuni beggja í huga, katta og fanga.

En það eru ekki aðeins boð og bönn í þessari verðandi samþykkt heldur er réttur kattaeigenda meitlaður í eftirfarandi setningu: „Auk þess er heimilt að merkja þá (kettina) með örmerkjum eða húðflúri.“ Er gott til þess að vita að nefnd á vegum borgarinnar ætlar loksins að hnykkja á þeim helga rétti borgarbúa að geta tattúerða dýrin sín!

Nú hefur verið tilkynnt með lúðrablæstri og söng að Gylfi Þ. Gíslason sitji í neðsta sæti Þjóðvakalistans í Reykjavík. Í gær voru einmitt 50 ár liðin frá því Gylfi greiddi atkvæði gegn inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið.  Á sama tíma stóð Alþingishúsið undir grjótkasti vinstri manna sem reyndu með ofbeldi að koma í veg fyrir að reynt yrði að tryggja öryggi landsins. Nú, fimmtíu árum síðar, láta vinstri menn sig enn dreyma um varnarleysi Íslands. Enn eru þeir sama sinnis, staðreyndin er sú að íslenskir vinstri menn eru eins andvígir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og þeir þora fyrir kjósendum.

Svonefnt samkeppnisráð hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið Tal hf. megi nota orðið „Frítal“ í auglýsingum sínum. Já, þetta Samkeppnisráð er til hér á Íslandi, með fólk á kaupi, iðandi af fjöri og tilbúið til að rannsaka og komast að niðurstöðu um hættuleg orð eins og „Frítal“. Það var auðvitað önnur ríkisstofnun sem kærði þessa notkun á Frítali. Sú stofnun heitir Landssíminn og hefur greinilega fólk á kaupi við að undirbúa rétt viðbrögð við alls kyns orðum sem fólk er að nota þarna úti.