Í prófkjörsbaráttu síðustu mánaða hefur mátt heyra háværar kröfur frambjóðenda um hertar refsingar við fíkniefnalagabrotum. Einn þeirra sem reynir að krækja í atkvæði með þessari vafasömu aðferð er einmitt í framboði í prófkjöri Þjóðvaka á Vesturlandi nú um helgina. Þessi krafa er ekki ný heldur bæði gömul og úrelt, en gengur stundum vel í kosningum, þar sem kjósendur taka því miður stundum mark á órökstuddu og háværu glamri óvandaðra frambjóðenda.
En þessi aðferð, að herða refsingar, er sem sagt ekki ný og hefur til dæmis verið reynd í New York fylki með vægast sagt hæpnum árangri. Þar hefur í 26 ár verið í gildi sú regla að menn sitji inni í lágmark 15 ár fyrir fíkniefnabrot þó þeir hafi ekki verið að höndla með nema tiltölulega lítið magn þessara efna. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa, fangelsin eru yfirfull af fíklum sem enga aðstoð fá til að losna undan fíkninni og á meðan eru göturnar jafn fullar af fíkniefnum og fyrr. Ef ekki enn fyllri. Þar sem árangurinn af þessum hörðu refsingum er minni en enginn eru nú uppi miklar umræður um að breyta þessu og lækka refsingarnar til að bæta ástandið, meðal annars á fylkisþinginu. Hver veit nema að því komi að stjórnmálamenn verði líka tilbúnir til þess hér á landi að horfa á nýjar leiðir í þessum málum, en það verður þó ekki fyrir kosningar ef að líkum lætur. Að minnsta kosti þangað til mun slitin plata um hertar refsingar verða spiluð þegar fíkniefnamál ber á góma.
Margrét Frímannsdóttir talsmaður Þjóðvaka upplýsti í gær að Þjóðvaki muni bjóða fram undir listabókstafnum S í kosningunum í maí. Hún sagði einnig að bókstafurinn Í hefði komið til greina en fallið hefði verið frá því að nota hann þar sem hætta væri á að margir kjósendur Þjóðvaka gerðu utankjörfundaratkvæði ógild með því að skrifa I í stað Í.
Márgret Frimannsdottir gérir greinílega rað fyrír að allt gafaða folkíð kjosí Þjoðvaka i vór.