Föstudagur 5. mars 1999

64. tbl. 3. árg.

„Frekar tekjuskatt en þjónustugjöld“ er yfirskrift greinar sem Björn Grétar Sveinsson forstjóri Verkamannasambands Íslands skrifar um tekjuskattskerfið í Dagblaðið Vísi í gær. Greinin er ekki skrifuð upp úr þurru heldur hefur Björn orðið þess áskynja að „á síðustu mánuðum og vikum hefur mikið borið á kröfunni um minnkandi skattgreiðslur til ríkis og sveitarfélaga“. Þykir Birni það ekki gott og vill sporna við slíkum hugleiðingum. Þykir honum sem óskir um minnkandi skattheimtu gangi varla upp þar sem „krafan um aukna þjónustu samfélagsins“ hefur „orðið æ háværari“. – „Ríki og sveitarfélög geta ekki staðið undir þessari þjónustu án þess að hafa tekjur“ segir Björn og bætir við að það sé „ljóst að ef við viljum halda uppi ásættanlegu stigi á velferðarkeri okkar verða allir Íslendingar að vera tilbúnir að greiða til samfélagsins.“

Jæja já. Það væru líklega all nokkur tíðindi ef Björn Grétar Sveinsson meinti í raun eitthvað með þessu fjasi sínu um „alla Íslendinga“. Það er nefnilega þannig að þegar litið hefur verið til persónuafsláttar og „bótakerfis“ þá er það ekki nema þriðjungur landsmanna sem greiðir tekjuskatt. Ef Birni Grétari finnst í raun brýnt að „allir Íslendingar“ greiði „til samfélagsins“, ætti hann að hefja heilagt stríð sitt á kröfu um að svokallaður „persónuafsláttur“ verði þegar í stað afnuminn og næst gæti hann snúið sér að bótakerfinu, þungur á brún.

nostrpic2.jpg (26463 bytes)
nostrpic2.jpg (26463 bytes)

Það er alltaf nægt framboð af bölsýnismönnum. Enda eru sæmilega trúverðugar hrakspár oft góð söluvara. Jakob F. Ásgeirsson gerir hrakspár um efnahagsmál að efni í grein í Morgunblaðið í gær. En Jakob er farið að lengja eftir kreppunni sem ýmsir hagspekingar hafa spáð um allnokkurt skeið. Einkum þykir Jakobi Þorvaldi Gylfasyni hagfræðiprófessor hafa mistekist þegar Þorvaldur ritaði heila bók, Síðustu forvöð, fyrir nokkrum árum þar sem hann sagði allt stefna norður og niður ef ekki yrði farið að sínum ráðum. Það væru síðustu forvöð. Nú var í engu farið að ráðum Þorvaldar en við tók einn mesti fjörkippur í íslensku efnahagslífi sem um getur. Um þetta segir Jakob: „Hvers vegna skyldu Þorvaldi Gylfasyni vera svo mislagðar hendur í spádómum? Það skyldi þó ekki vera af því að hann beiti sömu hundakúnstum í fræðum sínum og í sjónvarpinu um jólin er hann þóttist sýna fram á það að þegar Halldór Laxness barðist sem ákafast fyrir sovétkommúnismann og Stalín hafi það í raun vakað fyrir honum að stuðla að afnámi hafta á Íslandi og gangi Halldór næstur Jóni Sigurðssyni í Íslandssögunni sem boðberi frjálsrar verslunar!“

En það eru fleiri en Þorvaldur sem hafa spáð að undanförnu. Fjölmiðlamenn hafa sagt okkur hinum að allir, ekki síst bandaríska þjóðin, séu orðnir yfir sig leiðir á fréttum af „kvennamálum Clintons“. Fréttamenn ráðstjórnarradíósins RÚV voru einkar duglegir við að koma því á framfæri hve þrautleiðinlegar þessar fréttir væru. Þetta voru að vísu sömu fréttamennirnir og færðu okkur allar fréttirnar, en hvað um það. Í fyrrakvöld sagði íslenskur sjónvarpsfréttamaður okkur hins vegar að „mikil spenna“ væri í Bandaríkjunum vegna væntanlegs sjónvarpsviðtals við fröken Monica Lewinsky. Eitt hundrað milljónir Bandaríkjamanna horfðu á viðtalið og RÚV keypti auðvitað sýningarrétt á viðtalinu og sýndi það strax í gærkvöldi til að leggja áherslu á margrómað menningar- og öryggishlutverk sitt.