Helgarsprokið 7. mars 1999

66. tbl. 3. árg.

Umhverfisskattar eru vinsælt slagorð „nýrra“ vinstri manna. Þetta slagorð er ekki séríslenskt, því vinstri menn eru samir við sig hvert sem litið er í veröldinni, þeir leita látlaust að nýjum álögum. Sú ríkisstjórn sem Þjóðverjar kusu yfir sig á síðasta ári er byrjuð að bjástra við umhverfisskatta og þarf ekki að koma á óvart ef litið er á stjórnarmynstrið. Þar starfa saman krataflokkur, sem fór fram undir orðunum „Neue Mitte“, eða Ný miðja (sem hefur svo hvorki reynst ný né miðja), og græningjaflokkur sem haft hefur markaðshagkerfi og hagvöxt á hornum sér allt frá stofnun. Þessir flokkar fengu góðan byr í upphafi, en nú sýna skoðanakannanir að þeir hafa misst meirihlutann meðal þjóðarinnar, enda er að koma í ljós að „lausnir“ þessara flokka byggjast á skattahækkunum og auknum ríkisafskiptum. Sem sagt á gömlum lummum vinstri manna.

Hér baka vinstri menn einnig þessar gömlu lummur, en ein af þeim hugmyndum sem sameinaðir vinstri menn í nýjum Þjóðvaka hafa kynnt að undaförnu er umhverfisskattar. Hún er að vísu kynnt sem lækkun á tekjuskatti, a.m.k. í prófkjörskynningu Ágústs Einarssonar á dögunum. Samkvæmt prófkjörsbæklingi frambjóðandans átti þó aðeins að lækka tekjuskatt „einstaklinga og smærri fyrirtækja“. Það að vilja hafa annan skatt fyrir stór fyrirtæki en lítil er ágætt dæmi um skaðlega afskiptasemi vinstri manna af hagkerfinu. Ef slíkt yrði að veruleika færu stjórnendur stórra fyrirtækja að eyða tíma sínum og annarra starfsmanna fyrirtækjanna í að skipta þeim upp í smærri til að komast í lægra skattþrepið. Lítið yrði um verðmætasköpun á meðan.

En hvernig eiga þessir nýju umhverfisskattar svo að vera? Og hver á að greiða þessa skatta? Vinstri menn hafa að vísu ekki skýr svör við því hvernig þeir eiga að vera, en þeir lofa fólki að þessir skattar leggist á fyrirtæki en ekki launafólkið. Nú er það vel þekkt að óbeinir skattar eins og virðisaukaskattur og innflutningsgjöld, t.d. bensíngjald, eru í orði kveðnu lagðir á vöru og þjónustu fyrirtækja. Á borði eru það hins vegar að mestu leyti neytendur sem greiða þessa skatta, eða þykir einhverjum bensín ódýrt hér á landi? Halda menn að olíufélögin taki á sig allt bensíngjaldið? Nei, fyrirtækin sjá aðeins um að innheimta skattana og gjöldin og skila þeim til ríkisins. Grænir skattar og umhverfisgjöld hefðu sömu áhrif. Vöruverð myndi einfaldlega hækka.

Þar fyrir utan er nauðsynlegt að átta sig á því að ein af röksemdunum fyrir því að taka upp umhverfisskatta er að breyta hegðun fólks og fá það til að breyta neysluvenjum sínum. Þessar neysluvenjur breytast auðvitað ekkert ef fyrirtækin bera alla skattana og fólkið verður þeirra ekki vart. Þess vegna liggur í hlutarins eðli að umhverfisskattar bitna verr á neytendum en aðrir skattar. Það er því út í hött og til þess eins að slá ryki í augu kjósenda þegar vinstri menn halda því fram að einhverjir aðrir en neytendur beri skattana. Sköttunum er sérstaklega beint gegn neytendum.

Burt séð frá þessari áróðursbrellu vinstri manna má út af fyrir sig ræða hvort rétt sé að breyta beinum sköttum eins og tekjuskatti í óbeina neysluskatta. Það bera þó að hafa í huga að virðisaukaskattur er óvíða hærri en einmitt hér. Ef slíkir skattar eru hækkaðir enn frekar er hætt við að verslun og viðskipti færist einfaldlega úr landi. Fólk er farið að ferðast mun meira en áður og notar tækifærið til að versla þar sem skattar eru lágir. Það væri því líklega helst búbót fyrir þá sem ferðast mest ef tekjuskattur yrði lækkaður og neysluskattar hækkaðir. Vinstri menn beina nýjum sköttum sínum því helst gegn efnaminnstu neytendunum og er það í ágætu sögulegu samhengi við fyrri afrek vinstri manna.

Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að hafa í huga að nýir skattar eru oft lágir til að byrja með – en aðeins til að byrja með. Umhverfisgjöld og grænir skattar yrðu sjálfsagt tímabundin og í lægri kantinum fyrstu árin. En forveri virðisaukaskattsins, söluskatturinn, var líka tímabundinn og aðeins 2% til að byrja með þegar hann var lagður á fyrir nokkrum áratugum. Svipaða sögu er að segja af sérstökum eignarskatti vegna byggingar Þjóðarbókhlöðu. Hann átti að vera tímabundinn og eyrnamerktur tilteknu afar afmörkuðu verkefni. Ef rauða stóra húsið við Melatorg er Þjóðarbókhlaðan hefur ekki tekist að hafa Þjóðarbókhlöðuskattinn tímabundinn frekar en aðra „tímabundna“ skatta. Þetta rauða hús stendur þá sem minnisvarði um hvernig fer fyrir „lágum“ og „eyrnamerktum“ sköttum. Ef húsið er ekki Þjóðarbókhlaðan er svo sem hugsanlegt að umhverfisskattar vinstri manna yrðu lágir og jafnvel tímabundnir.